Það hefur vakið athygli fólksins í bakherberginu að undanförnu, hvernig hin nýja ríkisstjórn í Grikklandi hefur birst okkur hér á Íslandi og fólki annars staðar sé mið tekið af umfjöllun allra helstu fjölmiðla. Hún birtist sem baráttustjórn gegn vogunarsjóðum sem eiga kröfur á gríska ríkið, og líka sem baráttustjórn gegn fjármálaöflunum og alþjóðastofnunum sem hafa þvingað almenning í landinu til þess að greiða himinháar skuldir til baka, með sársaukafullum niðurskurði og eignasölu.
Stjórnmálaaflið Syriza, sem nú stýrir Grikklandi, hefur það sem leiðarstef að endursemja um skuldastöðu Grikklands, fá meiri afskriftir á skuldum og hverfa frá niðurskurði opinberra starfa, til þess að örva hagkerfið. Atvinnuleysi í landinu mælist 25,8 prósent, og er það mat Syriza að hinar miklu niðurskurðaraðgerðir, sem Evrópusambandið setti sem kröfu fyrir neyðaraðstoð, hafi ekki reynst landinu vel.
Syriza hefur verið sagt vinstri sinnað stjórnmálaafl, en fólkið í bakherberginu klórar sér í hausnum þegar hægri og vinstri er annars vegar í stjórnmálum. Um margt má segja að Syriza birtist með svipuðum hætti og Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns og forsætisráðherra gerði þegar hann vann magnaðan kosningasigur vorið 2013 og komst til valda á nýjan leik. Þar voru áhersluatriðin svipuð, en þó við ólíkar aðstæður. Að ráðast gegn vogunarsjóðunum og ná af þeim peningum til að lækka skuldir heimilanna, og að breyta fjármálakerfinu meðal annars með því að banna verðtryggð húsnæðislán, það er afnema verðtrygginguna. Þessi atriði vógu þungt, því almenningur virtist tengja vel við þessar áherslur um að berjast gegn „fjármálaöflunum“, ekki ósvipað og var reyndin með Syriza. Seinna atriðið, varðandi verðtrygginguna, er þó ekki komið til framkvæmda og ekki útséð með það hvað stjórnvöld ætla sér í þeim efnum.
Nú má segja að sé uppi merkileg staða, kannski lík þeirri sem er í Grikklandi. Stjórnvöld, með Sigmund Davíð í broddi fylkingar, eru að reyna að leysa úr flókinni stöðu fjármagnshafta þar sem þrotabú hinna föllnu banka skapa einna mesta vandamálið. Þó vogunarsjóðirnir séu fjarri því einu aðilarnir sem eru í kröfuhafahópi þrotabúanna þá eru þeir augljóslega valdamiklir og með marga þræði í hendi sér. Afnám fjármagnshafta verður líklega aldrei að veruleika nema á kostnað vogunarsjóðanna að einhverju leyti.
Fólkið í bakherberginu telur það alls ekki útilokað að stjórn Sigmundar Davíðs nái að leysa farsællega úr fjármagnshöftunum og þrotabúum hinna föllnu banka (Ímyndið ykkur tjónið sem þessir föllnu bankar hafa skapað þjóðarbúinu; ris og fall þeirra var stórskaðlegt fyrir hagkerfið og lánstraust þess erlendis, og þrotabú þeirra, sökum þess hvað þau eru stór, halda landinu í skelfilegum haftabúskap sem stjórnmálamennirnir hafa ekki þorað að afmá úr lögum!). Þá mun Sigmundur Davíð kannski birtast okkur eins og forsvarsmenn Syriza nú; sigri hrósandi. En ef þetta reynist þrautin þyngri, og niðurstaðan verður langt frá væntingum almennings, þá verður þetta kannski svipað og grískur harmleikur; dramatískt (pólitískt) fall með öllu tilheyrandi...