Íslendingar hafa margir hverjir setið stjarfir yfir hinum epísku dönsku sjónvarpsþáttum 1864. Þættirnir hafa verið stórkostlega umdeildir í Danmörku og leikstjórinn Ole Bornedal verið ásakaður um að nýta sér þættina, sem eru þeir dýrustu í sögu dansks sjónvarps, til að reyna að endurspegla pólitík nútímans með gagnrýnum hætti þar sem halli á sum pólitísk öfl frekar en önnur. Hin afar þjóðrækna Pia Kjaersgaard, sem stofnaði og stýrði Dansk Folkeparti og er hvað þekktust fyrir andstöðu sína gegn innflytjendum, ásakaði Bornedal meðal annars um að láta þættina snúast um þátttöku Dana í stríðinu í Afganistan, innflytjendaumræðu nútímans og að vera hreina sögufölsun.
Verst þótti henni þó meðferðin á Ditlev Monrad, forsætisráðherranum sem hratt Dönum út í stríðið sem er sögusvið þáttanna. Hann er sýndur sem sturlaður og verulega vanstilltur fáráður í þáttunum. Ástæða þess að þjóðernissinnuðum Dönum svíður þessi framsetning er meðal annars sú að Monrad, sem sannarlega var ákaflega stoltur Dani, er álitinn nokkur konar faðir dönsku stjórnarskráarinnar frá árinu 1849 og var einn þeirra sem kom hvað mest að gerð hennar.
Í bakherbergjunum hefur það verið rifjað upp að fyrsta stjórnarskrá Íslendinga, sem danski konungurinn færði henni að gjöf árið 1874 og er grunnurinn að þeirri stjórnarskrá sem enn er við lýði, átti rætur sínar að mestu að rekja til dönsku stjórnarskrárinnar sem Monrad átti svo stóran þátt í að semja.
Það séu því líka hagsmunir Íslendinga að fá úr því skorið hvort að höfundur höfuðplaggs stjórnskipunar okkar hafi verið sturlaður fáráður.