Læknar fóru fyrir nokkrum mánuðum í verkfall, eins og landsmenn fundu beint fyrir með verri heilbrigðisþjónustu. Eftir mikið karp náðust samningar við stjórnvöld þar um að laun lækna yrðu hækkuð, um meira en 20 prósent, auk þess sem vilyrði fyrir betra starfsumhverfi, í víðu samhengi, voru gefin.
Hluti af þessari umræðu er uppbygging nýs spítala, en árum saman hefur nú verið unnið að því að byggja upp nýjan hátæknispítala við Hringbraut. Hafa ýmsir starfshópar á vegum stjórnvalda, þvert á flokka, komið að undirbúningnum með einum eða öðrum hætti.
Könnunin var gerð á lokaðri Facebook síðu lækna. Niðurstöður þessarar könnunar sýna að tæp sautján prósent sérfræðilækna eru ánægðir með staðarvalið, 44 prósent þeirra vilja ekki hafa nýja spítalann við Hringbraut og 28 prósent segjast sæmilega sáttir og 11 prósent höfðu ekki skoðun.
Nú er það svo, að læknar eru ekki helstu sérfræðingarnir þegar kemur að staðarvali spítala. En þetta eru samt athyglisverðar niðurstöður, sem sýna að líklega verður seint hægt að ná sátt um staðarval fyrir uppbyggingu nýs spítala.
En stjórnmálamennirnir sitja uppi með það, að þurfa að velja hvar á að byggja upp. Og þá má ekki útiloka það, segir fólkið í bakherberginu, að þeir sjái sér nú leik á borði, í ljós þessarar könnunar á Facebook síðu lækna, og hreinsi borðið enn einu sinni, og byrji að undirbúa uppbygginguna. Alveg frá grunni...