Skúli Mogensen, fjárfestir, hefur verið áberandi í íslensku viðskiptalífi allt frá því hann snéri heim úr Oz ævintýrinu í Kanada haustið 2008 með fulla vasa fjár. Skúli er sú týpa af fjárfesti sem er mikilvæg hverju hagkerfi; áhættudrifinn, þó hann vilji kannski ekki kannast við það sjálfur. En fókusinn er dreifður, sem oft er talið vera fyrsta einkennið um áhættusækni. Peningar hans hafa á um sex árum farið í stofnun nýs banka eftir allsherjarhrun bankakerfis, flugfélag og ýmsa nýsköpunarstarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Athyglin sem þessu fylgir er aldrei langt undan. Svo ekki sé nú talað um þegar einkennislitur fyrirtækjanna er skær fjólublár eins og í tilviki WOW Air. Það verður að koma í ljós hvernig endurheimtur verða af þessum fjárfestingum þegar upp verður staðið, en margt hefur gengið vel, ekki síst nýsköpunarfjárfestingarnar.
Skúli var í athyglisverðu viðtali við Viðskiptablaðið á dögunum þar sem hann tjáði sig um margt og mikið. Eitt af því sem Skúli ræddi um voru fjármagnshöftin. Þar sagði hann meðal annars, þegar hann var að tala um að óvissa væri slæm og sífelldar breytingar á regluverki: „Aðalatriðið er að þú vitir að hverju þú gengur. Það hefði verið langbest að sagt hefði verið þegar höftin voru sett á að þau myndu vera hér í 10 ár.“ Þetta eru athyglisverð ummæli hjá Skúla. Ekki vegna þess að í þeim felist einhver djúp sannindi, heldur frekar vegna þess að þau eru um margt undarleg. Ef það væri þannig, að höft væru sett í tíu ár, og að því mætti treysta að þau yrðu afnumin eftir 10 ár, alveg sama hvað, þá myndi líklega myndast löng biðröð krónueigenda við útgöngudyrnar þegar höftin væru lögð af. Það gæti leitt til mikilla vandamála, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Hefði ekki verið alveg eins hægt að segja að höftin yrðu afnumin eftir einn sólarhring eða viku, eins og 10 ár?
Því miður eru fjármagnshöftin líklega aðeins flóknara mál en Skúli gefur í skyn í þessu annars ágæta viðtali.