Í gær bárust fréttir af því að virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, ofan Dettifoss, væru á meðal 23ja nýrra virkjanakosta á lista Orkustofnunar sem var sendur verkefnastjórn þriðja áfanga rammaáætlunar. Þessi tíðindi eru með nokkrum ólíkindum, og gefa vísbendingu um að þeir sem liggi yfir virkjanakostum í landinu víli ekkert fyrir sér. Eða þannig horfir málið við fólkinu í bakherberginu.
Fyrir utan röksemdir sem byggja á náttúruvernd og mikilvægi þess að vernda stórfenglega einstaka náttúru fyrir vilja skammsýnna stjórnmálamanna, þá er augljóst að benda á að Jökulsá á Fjöllum halar inn gríðarlega miklum gjaldeyristekjum á hverju ári með tilveru sinni einni saman. Svo mikilvæg er hún sem hluti af stórbrotinni náttúru landsins, sem dregur stærstan hluta erlendra ferðamanna til landsins. Aðdráttaraflið fyrir ferðaþjónustuna er íslensk náttúra, og Jökulsá á Fjöllum, að stórum hluta inn í þjóðgarði, er stór hluti af þessu aðdráttarafli.
Þessar augljósu röksemdir gegn því að vera yfir höfuð að hugsa um Jökulsá á Fjöllum sem virkjunarkost, eru þó ekki einu röksemdirnar sem koma upp í hugann. Það er kostulegt, og með ólíkindum, að fólki skuli detta það í hug að koma fram með þessar glórulausu hugmyndir mitt ofan í aðstæður, þar sem Almannavarnir fylgjast grannt með gangi mála við upptök Jökulsár á Fjöllum vegna jarðhræringa og eldgosa í Holuhrauni, sem eru í gangi. Íbúafundir hafa verið haldnir með reglulegu millibili undanfarna mánuði, þar sem farið hefur verið yfir rýmingaráætlanir og aðrar aðgerðir, ef til stórhlaups í Jökulsá kæmi. Virkjanir á svæðinu myndu tætast niður í slíku hlaupi, samkvæmt upplýsingum sem ráðamenn þjóðarinnar hafa fengið kynningu á sjálfir og tjáð sig um út á við, en skuldirnar sem á almenningi myndu hvíla yrðu eftir. Í bakherberginu er lagt til að Alþingi kalli strax á sinn fund Harald Sigurðsson, jarðfræðiprófessor, og jarðeðlisfræðingana Pál Einarsson og Magnús Tuma Guðmundsson, og spyrji þá spjörunum úr. Fyrsta spurningin getur verið svona; Er skynsamlegt að horfa til Jökulsár á fjöllum sem virkjunarkosts um þessar mundir?