Fólkið í bakherberginu var ekki hissa að sjá það í dag, á forsíðu Fréttblaðsins, að frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fiskveiðistjórnun, væri strand. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur reyndar verið með frumvarpið tilbúið í dágóðan tíma, og fengu hagsmunaaðilar kynningu á efni þess í nóvember í fyrra. Þá var þeim sagt að frumvarpið yrði komið inn í þingið innan nokkurra vikna, en það hefur ekki verið tekið fyrir af ríkisstjórninni ennþá. Ágreiningur um efni þess er augljós ástæða. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki áhuga á því að breyta kvótakerfinu svokallaða, á meðan Sigurður Ingi og félagar í Framsóknarflokknum boða meiri breytingar, meðal annars að komið verði á kvótaþingi þar sem viðskipti með aflaheimildir fara fram, og að samið verið um nýtingu veiðiréttar til lengri tíma, 20 ár eða meira.
Sjávarútvegsfyrirtæki eru mörg og misjöfn, og eiga misjöfnu gengi að fagna. Stundum gleymist það, að mörg minni fyrirtæki í þessu burðarvirki hagkerfisins sem sjávarútvegur er, eru oft að glíma við erfiðleika. Rekstrartölurnar fyrir geirann í heild sýna hins vegar mikið góðæri og bestu afkomu sem sést hefur í sjávarútvegi. Stórar útgerðir sem notið hafa góðs af makrílnum í íslenskri lögsögu undanfarin ár vega þar þungt. Þar á meðal eru HB Grandi, Samherji, Síldarvinnslan, Skinney-Þinganes og Ísfélag Vestmannaeyja. Afkoma þessara fyrirtækja hefur verið með ólíkindum góð, og verðfall á olíu hefur unnið með þeim að undanförnu.
Fólk í bakherberginu klórar sér í hausnum yfir einu, og það er fyrirkomulag makrílveiðanna til framtíðar litið. Hvað ætla stjórnmálamennirnir að gera varðandi þær? Stendur til að gefa makrílkvótann til útgerða á grundvelli veiðireynslu? Það hafa ekki komið skýr svör um hvernig flokkarnir á þingi telja best að leysa úr þessum málum, en þó er nauðsynlegt að gera það sem fyrst. Makríllinn hefur komið eins og himnasending inn í íslenska hagkerfið, nánast á sama tíma og bankakerfið hrundi og gengið sömuleiðis. Mörg stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins eru hins vegar ekki með dreift eignarhald, og því hafa hluthafarnir, tiltölulega þröngur hópur fjölskyldna í mörgum tilvikum, notið góðs af því mikla góðæri sem einkennt hefur makrílveiðar, vinnslu og sölu. Enda hefur kvótinn sífellt verið að færast á færri hendur á undanförnum árum, eins og myndin hér á neðan, sem byggð er á gögnum frá Fiskistofu, sýnir.
Það verður spennandi að sjá hvernig stjórnarflokkunum tekst að leysa úr ágreiningi varðandi regluverkið í sjávarútvegi. Það hefur nú löngum verið uppspretta harðra deilna á vettvangi stjórnmálanna og er það greinilega ennþá...