Hæstiréttur staðfesti í gær að þrotabú Baugs ætti að fá samþykkta 14 milljarða króna kröfu í þrotabú Kaupþings. Krafan er sett fram vegna 15 milljarða króna greiðslna Baugs til helstu hluthafa sinna korteri fyrir hrun sem fjármögnuð var með láni frá Kaupþingi. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að greiðslan hefði verið gjöf og að rifta ætti greiðslunum.
Málið snýst um viðskiptafléttu sem ráðist var í nokkrum mánuðum fyrir hrun þegar smásölurisinn Hagar voru seldir út úr Baugi til félagsins 1998 ehf.með 30 milljarða króna láni frá Kaupþingi. Helstu eigendur Baugs og 1998 voru sama fólkið, Jón Ásgeir Jóhannesson og tengdir aðilar.
Í Bakherbergjunum hafa spekingar verið að rýna í dóm Hæstaréttar og séð að þar komi skýrt fram að Baugur hafi ekki átt neinn pening til að standa við greiðslu skulda sinna snemma árs 2008. Þar segir til dæmis frá því að í byrjun mars 2008 hafi Kaupþing samið kynningu um stöðu Baugs þar sem sagði m.a. að fjárþörf félagsins sýndi að Baugur „gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar án utanaðkomandi íhlutunar eða inngrips“.
Hæstiréttur horfði líka sérstaklega til tölvupósts sem Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var stjórnarformaður Baugs á þessum tíma, sendi Hreiðari Má Sigurðssyni, þáverandi forstjóra Kaupþings, 9. júlí 2008 með beiðni um skammtímalán frá bankanum upp á 3,1 milljarð króna til að greiða gjaldfallnar skuldir félagsins. Í dómi Hæstaréttar segir: „Í niðurlagi bréfsins sagði stjórnarformaðurinn að hann hefði unnið hörðum höndum að því að bæta stöðu sóknaraðila meðal annars með sölu á Högum hf. Vonandi fyndu þeir lausn næsta dag en ef ekki „þá þurfum við ekki að spyrja að leikslokum.“
Lánið fékkst og Baugur gat haldið áfram. Lausnin var þó skammgóður vermir. Baugur fór á endanum í risavaxið gjaldþrot í mars 2009. Um 400 milljarða króna kröfum var lýst í búið og um 100 milljarða króna kröfur voru samþykktar. Heimtur voru í vor um eitt prósent en dómur Hæstaréttar í gær mun hækka þær eitthvað. Leikslokin urðu því á endanum frekar súr fyrir kröfuhafa Baugs.