Búast má við því að samfélagið fari, enn einu sinni, á hliðina á næstu dögum þegar frumvarp um nýtt fiskiveiðistjórnunarkerfi verður kynnt. Líklegt þykir að álögur á sjávarútvegsfyrirtæki, og sérstaklega hin svokölluðu veiðigjöld, verði þar lækkuð.
Í Morgunblaðinu í dag var rætt við Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar Alþingis, og einn ötulasta varðmanns hagsmuna íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sem situr á Alþingi. Þar sagði Jón að það verði að búa til rekstrarumhverfi fyrir sjávarútveginn þannig að bankar og lánastofnanir séu tilbúnar að lána fyrirtækjum í greininni til uppbyggingar. Auk þess megi veiðigjöld ekki verða íþyngjandi fyrir sjávarútveginn.
Þessi orð vöktu athygli í bakherbergjunum. Sérstaklega vegna þess að sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa verið að upplifa sitt mesta góðæri frá upphafi fiskveiða undanfarin ár.Makrílveiðar hafa þar skipt miklu, en þær hafa skilað um 100 milljörðum króna frá árinu 2007. Á síðustu tveimur árum, 2012 og 2013, nemur samanlagður hagnaður greinarinnar 100 milljörðum króna.
Á þessu tímabili hafa sjávarútvegsfyrirtækin ekki verið að leita sér að mikili fyrirgreiðslu í banka. Þau hafa þvert á móti verið að borga upp lán á ljóshraða. Alls hafa heildarskuldir þeirra lækkað um 153 milljarða króna frá árinu 2009 og afborganir umfram nýjar langtímaskuldir nema 121 milljörðum síðastliðinn sex ár. Flestar fjárfestingar, kaup á nýjum skipum og endurnýjum nauðsynlegs búnaðar, hefur verið hægt að fjármagna fyrir eigið fé.
Eiginfjárst íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur því snúist algjörlega við. Hún var neikvæð um 80 milljarað króna í lok árs 2008. Nú er hún jákvæð um 107 milljarða króna.
Í bakherbergjunum klóruðu því margir sér í hausnum yfir þeirri yfirlýsingu Jóns að tryggja þyrfti að bankar og lánastofnanir myndu vera tilbúnar að lána sjávarútvegsfyrirtækjum. Líklega eru engin fyrirtæki á Íslandi sem þau væru frekar til í að lána eins og staðan er í dag.