Það hefur vart farið framhjá neinum að Mjólkursamsalan (MS) hefur átt undir högg að sækja í umræðunni undanfarin misseri. Niðurstaða Samkeppnisyfirvalda um að fyrirtækið hafi misnotað gróflega markaðsráðandi stöðu sína til að knésetja pinkulitla samkeppnisaðila, og hrokafull viðbrögð forsvarsmanna iðnaðarins, sem harðneita að nokkuð óeðlilegt hafi átt sér stað, hafa framkallað reiðibylgjur um allt samfélagið.
Í Bakherberbergjunum var á tímabili um lítið annað rætt en þau ætluðu brot sem fyrirtækið hefur framið gagnvart neytendum og samkeppni í landinu með einokunartilburðum sínum. Þessi samtöl náðu augljóslega langt út fyrir þau skúmaskot því vikum saman hefur mátt sjá íslenska neytendur eyða drykklöngum tíma fyrir framan mjólkurkæla verslanna við að reyna að finna út leiðir til að kaupa sem flestar nauðsynjarmjólkurvörur af öðrum framleiðendum en MS. Slíkt er hins vegar erfitt, enda markaðshlutdeild þessa risafyrirtækis, sem hefur notið verndar og liðsinnis sterkra og sérhagsmunadrifinna stjórnmálamanna áratugum saman, nánast líklega vel yfir 95 prósent.
Það hefði því verið eðlilegt að ætla að MS myndi huga strategískt að almannatengslamálum sínum næstu mánuðina og reyna að passa upp á að ekkert nýtt kæmi upp sem gæti vakið upp minningar um hina ætluðu misnotkun. Stjórnendum MS hefur því líkast til þótt það afbragðs hugmynd að taka þátt í átakinu „Allir lesa“, sem er ætlað að auka lestur þjóðarinnar á bókum í október. Meðal þess sem MS leggur til átaksins er að merkja mjólkurfernur með hvatningarskilaboðum til verðandi lesenda. Í ljósi þess samsæris gegn neytendum sem Samkeppniseftirlitið kom nýverið upp um, og fjölmiðlar hafa síðan rakið að hafi líkast til staðið yfir áratugum saman, hefði markaðsdeild MS þó líklegast átt að velja aðeins betri skilaboð á fernurnar: