Í bakherberginu hefur verið til umræðu skemmtileg saga sem barst þangað nýverið. Sagan var reyndar í formi ábendingar, þar sem dyggur lesandi Kjarnans furðaði sig á því að netfang Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, væri ekki að finna á heimasíðu ráðuneytisins. Viðkomandi fékk þau skilaboð frá ráðuneytinu, þegar hann hugðist senda forsætisráðherra vorum tölvupóst, að einungis væri hægt að senda ritara hans tölvupóst. Sá sem vildi koma skilaboðum til Sigmundar hélt því fram við bakherbergisbúa að greinilegt væri að forsætisráðherra hafi engan áhuga á að fá tölvupósta frá „kolsvörtum almúganum.“
Þá fullyrti heimildamaður bakherbergisins sömuleiðis að Sigmundur Davíð væri eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem ekki gæfi upp tölvupóstfangið sitt á starfsmannalistum ráðuneytanna sem finna má inn á heimasíðum þeirra.
Þá fullyrti heimildamaður bakherbergisins sömuleiðis að Sigmundur Davíð væri eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem ekki gæfi upp tölvupóstfangið sitt á starfsmannalistum ráðuneytanna sem finna má inn á heimasíðum þeirra. Bakherberginu fannst sagan fyndinn, sérstaklega í ljósi sögusagna um litla viðveru forsætisráðherra.
Eftir lauslega könnun, sem framkvæmd var úr bakherberginu, stenst þessi fullyrðing ekki alveg skoðun. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, gefur ekki heldur upp tölvupóstfangið sitt á heimasíðu ráðuneytisins, og þá eru Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skráð með sama tölvupóstfangið eða postur@vel.is. Þá er ráðuneytisstjórinn í velferðarráðuneytinu sömuleiðis skráður með sama netfang og ráðherrarnir tveir.
Ekki er vitað hverju ofangreint sætir, netfangaleysi ráðherranna á sér sjálfsagt skýringar. Eftir sem áður getur „kolsvartur almúginn“ vafalítið komið skilaboðum áleiðis til forsætisráðherra, að minnsta kosti í gegnum einhvern hinna fjölmörgu aðstoðarmenn hans.