Vilhjálmur Egilsson.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, er enn formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Seðlabankans og einnig upplýsingum frá stjórnsýslunni. Fyrirsjáanlegt er að breytingar verði gerðar á bankaráðinu á næstunni og nýr formaður taki við af hinum nýskipaða innanríkisráðherra. Í bakherberginu heyrðist orðrómur um að Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, verði næsti formaður ráðsins. „Þú segir mér fréttir ef það á að verða raunin,“ sagði Vilhjálmur og hló, aðspurður um þennan orðróm. Hann sagðist ekkert vita um þessi mál og ekki hefði verið leitað til hans, í það minnsta ekki ennþá.
Athyglisverður að sjá hver verður næsti formaður bankaráðsins. Í ráðinu eru fjórir karlar og þrjár konur eins og mál standa nú, og hlutföllin yrðu augljóslega ójafnari ef Ólöf færi út og karl kæmi inn í staðinn. En líklegt verður að teljast að Sjálfstæðisflokkurinn skipi einhvern úr sínum röðum. Þó hlutverk bankaráðsins sé fyrst og fremst formlegs eðlis, þá er um það rætt í bakherberginu að það skipti máli í hinu pólitíska valdatafli, þessa dagana, að gefa ekki frá sér neinar vígstöður, sama hverjar þær eru.