Það vakti athygli í vikunni þegar tilkynnt var um að enn einn sérfræðingahópurinn um afnám fjármagnshafta hefði verið skipaður. Hann kemur í kjölfar ráðgjafahóps um losun fjármagnshafta sem skipaður var í nóvember 2013, framkvæmdastjórnar um afnám hafta, sem skipuð var í júlí 2014 og vali á landsliði erlendra ráðgjafa sem var samhliða ráðið til að hjálpa við ferlið. Yfir öllu klabbinu er stýrinefnd, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra leiðir. Undir henni starfar sérstök verkefnisstjórn með allskonar embættismönnum.Til hliðar hefur síðan verið starfandi samráðsnefnd allra stjórnmálaflokka um afnám hafta auk þess sem fjármálastöðugleikasvið Seðlabanka Íslands hefur unnið linnulaust að losunarskrefum um margra ára skeið.
Og nú er staðfest að enn einn hópurinn verði skipaður. Stjórnvöld hafa reyndar enn ekki tjáð sig um nýja hópinn og ekki liggur fyrir undir hvaða ráðuneyti hann mun heyra. Eina sem er ljóst er að Sigurður Hannesson, einn nánasti ráðgjafi og vinur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, mun sitja í honum ásamt Benedikt Gíslasyni, sem hefur starfað fyrir Bjarna Benediktsson að losun hafta síðan í nóvember 2013.
Í bakherberginu hefur skipun þessa nýja hóps komið mörgum haftapervertunum á óvart. Benedikt var bæði í ráðgjafahópnum sem skipaður var í nóvember 2013 og situr í framkvæmdastjórn um losun hafta sem skipuð var síðasta sumar. Hann þarf því ekki annan vettvang til að hafa áhrif. Bakherbergismenn telja augljóst að nýi hópurinn sé runnin undan rifjum Sigmundar Davíðs sem finnst sem að fjármála- og efnahagsmálaráðherra og Seðlabankinn væru að fara með losun hafta í aðra átt en hann hefur stefnt að. Sigmundur Davíð hefur enda haft það að leiðarljósi allan sinn pólitíska feril að ríkið nái að græða formúu af peningum á losun hafta sem teknir verði úr þrotabúum fallina banka sem nokkurs konar miskabætur fyrir tjónið sem þeir ollu íslensku þjóðinni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að ríkið eigi að hagnast vel á losun hafta. Og að þrotabú fallina banka eigi að greiða þann hagnað.
Það hlýtur því að hafa verið áhyggjuefni fyrir stjórnmálamann sem hefur bundið sig pólitískt jafn kyrfilega fast við haftalosunarlottóvinning að heyra af því að Glenn Kim, sem leiðir framkvæmdastjórn um losun hafta, og stjörnuráðgjafinn og Icesave-stjarnan Lee Buchheit, hafi ekki gefið þeim áformum undir fótinn þegar þeir kynntu áætlanir um losun fjármagnshafta fyrir samráðsnefnd stjórnmálaflokkanna um afnám hafta þann 4. desember 2014. Þvert á móti sögðu mennirnir tveir mjög skýrt á fundinum að markmið tillagnanna, sem snúast m.a. um flata útgönguskatt, væru ekki að afla tekna fyrir íslenska ríkið, heldur að afnema fjármagnshöft.
Í bakherberginu er talið meira en líklegt að óvænt og hröð innáskipting Sigurðar Hannessonar í haftalosunarliðið sé viðbragð við þessum fregnum. Sigurður, sem er ákaflega fær maður, er talin vera sömu skoðunar og Sigmundur Davíð þegar kemur að losun hafta. Og finnst að ríkið eigi að græða vel á þeim.