Nýsköpun og frumkvöðlastarf er það sem dregur vagninn áfram. Hagkerfin staðna án nýsköpunar, hvort sem það er í vöruþróun eða lausnum á vandamálum sem ekki hafa verið leyst áður. Þar koma frumkvöðlar til skjalanna, oft með dirfsku, djörfung og klókindi að vopni. Það getur verið flókið að nálgast þennan málaflokk, hvort sem það er með pólitískri stefnu eða fjárfestingarstefnu í huga. En grundvallaratriðið er að mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðla sé viðurkennt og óumdeilt hjá þeim sem þurfa að koma að stefnumótuninni.
Fólkið í bakherberginu telur sig skynja mikinn kraft þegar kemur að þessum málum hér á landi í augnablikinu, og á það við um fjármálamarkaðinn og stjórnmálamennina. Nú hefur meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, með Frosta Sigurjónsson formann nefndarinnar í broddi fylkingar, náð saman um að auka heimildir lífeyrissjóða til þess að kaupa óskráð bréf, úr 20 prósent af heildareignum í 25 prósent. Auk þess hafa heimildir verið rýmkaðar svo fjármagn geti í auknu mæli farið inn á First North markaðinn svokallaða, þar sem smá og meðalstór fyrirtæki geta náð sér í fjármagn.
Þetta er mikið gleðiefni, segir fólkið í bakherberginu, en stutt er síðan tilkynnt var um þrjá nýja sjóði sem munu hafa 11,5 milljarða til umráða. Það eru Brunnur vaxtarsjóður slhf., sem Landsbréf og SA Framtak GP standa að, með fjóra milljarða, Eyrir Sprotar með 2,5 milljarða, og Frumtak 2 með fimm milljarða. Augljóslega kemur fjármagn í þessa sjóði frá lífeyrissjóðum að einhverju leyti.
Það eru kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir því hvað þessi málefni eru mikilvæg fyrir íslenskt atvinnulíf. Nú er komin upp betri staða en áður til þess að styðja við góðar hugmyndir með raunverulegum þunga og krafti. Þar er langtímasýn og fjárfesting til framtíðar litið aðalatriðið. Vonandi tekst að búa til ramma þar sem dirfskan helst áfram, og fagleg umgjörð fjárfestanna ýtir undir góða niðurstöðu í hverri fjárfestingu.
Fólkið í bakherberginu er sannfært um að sá mikli vel menntaði mannauður sem er hér á landi, geti lagt grunninn að bjartri framtíð hagkerfisins, ef það tekst að virkja nýsköpunarstarf í atvinnulífinu með góðu samstarfi frumkvöðla, háskóla, fyrirtækja, lífeyrissjóða og einkafjárfesta. Skrefin að undanförnu hafa svo sannarlega verið stigin í rétta átt og gott til þess að vita, að nýsköpun sé að fá það sem hún á skilið...