Að undanförnu hefur magnað björgunarafrek lækna á landspítalanum verið nokkuð til umræðu og til umfjöllunar í fjölmiðlum, þegar manni var bjargað frá dauða eftir að hann var stunginn í hjartað. Í bakherberginu er því sérstaklega fagnað að hér á landi sé framúrskarandi gott heilbrigðisstarfsfólk sem geti unnið svona afrek undir miklu álagi.
En á sama tíma heyrast líka óhuggulegar sögur af landspítalanum. Þær koma frá venjulegu fólki, aðstandendum sjúkra sem fá mun verri þjónustu en fólk á almennt að venjast. Allir gera sér grein fyrir því að heilbrigðisstarfsfólk er allt að vilja gert, en því miður er það svo að álagið getur stundum orðið ill viðráðanlegt. Á dögunum lýstu foreldrar ungs drengs því fyrir fólki í bakherberginu að drengurinn hefði næstum komist í lífshættu vegna þess að hann þurfti að bíða svo lengi eftir því að komast undir læknishendur. Um var að ræða veikindi sem stigmögnuðust áður en læknirinn greindi hann og hægt var að bregðast við með hjálp lyfja. Hann nefndi við foreldrana að litlu hefði mátt muna.
Í bakherberginu voru einnig fleiri sögur ræddar, þó tilfellin hafi verið vægari í þeim tilvikum. Einfaldlega verri þjónusta, minni aðstoð við sjúka og aðstandendur þeirra. Verkfallsaðgerðir lækna hafa haft mikil áhrif á heilbrigðisþjónustuna. Mörg hundruð aðgerðum hefur verið frestað og álagið jókst til muna. Þannig hafa til dæmis bókaðir tímar hjá læknum á göngudeildum geðdeilda fallið niður ítrekað, bara svo eitt einangrað dæmi sé tekið. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu alvarlegar afleiðingar þetta getur haft.
Í bakherberginu hneykslast menn á því að stjórnmálamenn opni ekki augun fyrir þessu skelfilega ástandi sem hefur skapast á þessum stærsta og mikilvægasta vinnustað landsins. Stjórnvöld þurfa að höggva á hnútinn sem kjarabarátta lækna er í, og alltof langur tími hefur liðið án þess að lausn hafi verið fundin, eða vel á annað mánuð! Vonandi byrjar næsta ár ekki með verkfallsaðgerðum, og enn frekari þjónustuskerðingu. Sögurnar óhuggulegu sem heyrast í bakherberginu af stöðunni á landspítalanum bera vott um að þolmörkin hafi verið rofin.