Ólafur Ólafsson var einn þeirra sem dæmdur til langrar fangelsisvistar í Al Thani málinu svokallaða í síðustu viku. Ólafur tók dómnum ekki af mikilli auðmýkt heldur sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann efaðist um að réttarríki sé við lýði á Íslandi, að eflaust hafi mennirnir verið dæmdir vegna þrýstings frá stjórnmálamönnum og almenningi og að „gildishlaðnar og innistæðulausar ályktanir dómsins“ breyttu engu um að dómurinn hefði ekki getað bent á nein haldbær sönnunargögn eða framburð vitna um að hann væri sekur.
Til upprifjunar þá er ein helsta ástæða þess að mennirnir fjórir voru dæmdir sú að send var út yfirlýsing um kaup Al Thani á hlut í Kaupþingi þar sem engu var getið um aðkomu Ólafs, sem átti að geta hagnast á fléttunni, né um þá staðreynd að Kaupþing fjármagnaði kaupin á bréfunum í sjálfu sér.
Í bakherberginu hefur enn ein yfirlýsing Ólafs verið rifjuð upp að undanförnu. Hún var send á fjölmiðla 19. janúar 2009 í kjölfar umfjöllunar þeirra um Al Thani fléttuna. Þar sagði Ólafur meðal annars: „Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, þá greiddi Al Thani fjölskyldan hinn 8. október 12,5 milljarða króna af þeim hluta lánsins sem hún var í ábyrgð fyrir og hinn 21. október hafði ég persónlega milligöngu um að greiða fyrir fjölskylduna eftirstöðvarnar með vöxtum sem þá voru 402 milljónir króna“.
Ástæða þess að þetta hefur verið rifjað upp er sú að í dómi Hæstaréttar í Al Thani málinu kemur skýrt fram að Al Thani fjölskyldan hafi einmitt ekki greitt umrædda greiðslu þann 8. október 2008, sem var dagurinn áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir Kaupþing. Þvert á móti.
Í dómi Hæstaréttar segir: „Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að peningamarkaðslán Kaupþings banka hf. til Brooks Trading Ltd.[í eigu Al Thani] hafi verið í vanskilum frá 18. nóvember 2008 þegar gjalddaga lánsins bar upp samkvæmt áðurnefndu skjali um framlengingu þess 14. október sama ár. [...] Kaupþing hf., svo sem félagið hét þá orðið, gaf út stefnu 19. janúar 2012 á hendur MAT[Mohamed bin Khalifa Al Thani], þar sem krafist var aðallega að hann yrði dæmdur til að greiða félaginu 12.662.854.813 krónur. Sú krafa var einkum reist á því að bæði skuld Serval Trading Group Corp.[í eigu Al Thani] og ábyrgð MAT væru enn við lýði, enda hafi greiðsla Brooks Trading Ltd. á skuldinni 8. október 2008 verið „ólögmæt og ógild sem slík.“
Það mál mun aldrei hafa verið þingfest, en fyrir liggur að Kaupþing hf. og þrotabú Brooks Trading Ltd. gerðu 7. desember 2012 samning við MAT og fleiri um að ljúka ágreiningi, sem þetta fyrirhugaða dómsmál átti að taka til, með því að sá síðastnefndi greiddi þrotabúinu 26.500.000 bandaríkjadali. Samkvæmt bréfi slitastjórnar Kaupþings hf. 21. febrúar 2013 fékk félagið 12. sama mánaðar greidda 25.962.735,31 bandaríkjadali af framangreindri fjárhæð frá þrotabúi Brooks Trading Ltd.“
Þær geta verið varasamar yfirlýsingarnar. Sérstaklega þegar upplýsingarnar sem koma fram í þeim eru ekki réttar.