Í bakherberginu var það til umræðu á dögunum, að Orkustofnun hefði sett Jökulsá á Fjöllum á meðal 23ja nýrra virkjanakosta sem var sendur verkefnastjórn þriðja áfanga rammaáætluna. Fólkið í bakherberginu var sammála um að þessar hugmyndir Orkustofnunar væru kostulegt rugl, meðal annars vegna þess að virkjanakostirnir í Jökulsá á Fjöllum eru inn í þjóðgarði og að stórbrotin náttúra Jökulsár ætti ekki að vera virkjunarkostur. Þá var einnig á það bent að Almannavarnir í landinu eru í viðbragðsstöðu vegna jarðhræringa í Bárðarbungu og eldgoss í Holuhrauni, en hlaup gæti farið niður Jökulsá á Fjöllum, eins og stjórnvöld hafa raunar kynnt á íbúafundum á mögulegu áhrifasvæði hlaups, sem gæti valdið stórkostlegu tjóni og vitaskuld lagt virkjanir í rúst, ef einhverjum nógu vitlausum myndi detta það í hug að byggja virkjanir í Jökulsá.
Í dag kom það í ljós að fólkið í bakherberginu hafði rétt fyrir sér en Orkustofnun rangt fyrir sér. Stofnunin gerði barnaleg mistök, þegar hún lagði Jökulsá á Fjöllum til sem virkjunarkost inn í Vatnajökulsþjóðgarði. Í morgun tilkynnti Orkustofnun að hún hafi dregið þrjá virkjunarkosti til baka, sem stofnunin lagði fyrir verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar, vegna ábendingar þjóðgarðsvarðar Vatnajökulsþjóðgars. Þetta eru óvirkjaðir staðir sem í skýrslum Orkustofnunar hafa verið nefndir Arnardalsvirkjun, Helmingsvirkjun og Vetrarveita. Var þetta gert í kjölfar ábendinga frá Hjörleifi Finnssyni þjóðgarðsverði í fréttum RÚV . Við athugun á þessum glórulausu hugmynd Orkustofnunar í ljós að kortagrunnurinn frá Umhverfisstofnun, sem Orkustofnun byggði á, innihélt ekki nýjustu upplýsingar um breytingar á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs.
Fólkið í bakherberginu vonast til þess að Orkustofnun læri af þessum mistökum, detti ekki til hugar aftur að koma fram með hugmyndir um að virkja Jökulsá á Fjöllum.