Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, hringdi inn í símatíma á Útvarpi Sögu í dag. Gunnlaugur sá sig knúinn til að hringja inn í útvarpsþáttinn Línan laus, í umsjón Péturs Gunnlaugssonar, til að leiðrétta rangfærslur sem hann fullyrti að fyrri hlustandi, sem sagðist heita Jón, hefði haldið fram í útvarpsþættinum um aðkomu Gunnlaugs að Kögunarmálinu svokallaða.
Í símtalinu sagði Gunnlaugur: „Þetta er nú það sem menn sitja upp með í litlu þjóðfélagi, þegar lygar eru settar í gang, og gróa á leiti, þá fer fólk af stað í ýmsum tilgangi; annað hvort er það ekki nógu vel gefið til að skilja hlutina, eða það bara vill deila eða dreifa illindum.“
Gunnlaugur kvaðst hafa þurft að sitja undir ósannindum í tengslum við Kögunarmálið svokallaða í langan tíma. Hann hafi til að mynda neyðst til að höfða meiðyrðamál vegna ásakanna sem á hann hafi verið bornar. „Ég reyndi að leiðrétta einn pjakk, sem að bar upp á mig þessar lygar, með því að fara í meiðyrðamál við hann. Teitur Atlason heitir hann og er nú varaformaður í Neytendasamtökunum.“
Aðspurður um hvort Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, hafi átt þátt í því að Gunnlaugur hætti á þingi á sínum tíma, og hvort þeir hafi verið pólitískir mótherjar, svaraði hann spurningunni neitandi. „Við Halldór áttum gott samstarf þangað til ég kom inn í þingið. Er það ekki nóg svar?“
Gunnlaugur sagðist hafa ákveðið að hætta á þingi til að einbeita sér betur að rekstri Kögunar. „Ég sagði þá Pétur, að mér fyndist að þingmennska, og ég ætlaði ekkert að vera niðrandi með það, myndi henta mjög mönnum og konum sem væru orðin sextug. Og hefðu öðlast svona sálarró, og gætu tekið því fagnandi þó að hlutirnir gengju stundum hægt fyrir sig. Núna þegar ég er orðin sextugur sjálfur þá er ég búin að færa þennan aldur upp í sjötugt,“ sagði Gunnlaugur. Þá spurði þáttastjórnandinn Pétur Gunnlaugsson: „Þú vilt öldungadeild bara?“ „Já, ég held að það myndi henta betur,“ svaraði Gunnlaugur þá.
Þessi ummæli eru athyglisverð og um margt brosleg, í ljósi þess að sonur hans, Sigmundur Davíð, er yngsti forsætisráðherra lýðveldisins.