Jæja, á morgun rennur upp stóri dagurinn, sem margir hafa beðið eftir. Á morgun fá nefnilega þeir sem sóttu um að fá verðtryggð húsnæðislán sín "leiðrétt" vegna "forsendubrestsins," svokallaða, að vita hvað þeir fá mikinn pening úr ríkissjóði okkar allra að gjöf. Væntingar almennings eru tempraðar, enda hefur loftið lekið úr væntingablöðrunni hratt að undanförnu, og að sama skapi hefur fjarað undan Framsóknarflokknum á sama tíma. Þá var rykið dustað af Reykjavíkurflugvallarmálinu, til að draga athygli almennings frá skuldaniðurfellingunni, sem margir óttast að verði hvorki fugl né fiskur.
Í bakherberginu er tímasetning skuldaniðurfellingaaðgerða ríkisstjórnarinnar höfð í flimmtingum. Í bakherberginu finnst mönnum og konum athyglisvert og í senn grátbroslegt að á sama tíma og læknar og tónlistarkennarar eru í verkfalli, Landspítalinn er nagaður í sundur af maurum, og átján ræstingakonum er sagt upp hjá stjórnarráðinu, á að gefa sumum pening úr sameiginlegum sjóði okkar allra.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, að fólk mætti eiga von á einni til tveimur milljónum króna að jafnaði í "skuldaleiðréttingunni." Það þýðir að sá sem fær 1,5 milljón og skuldar fimmtán milljónir, þarf að borga tæpum 6.000 krónum minna á mánuði til niðurgreiðslu á láninu. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Það er ekki há upphæð ein og sér, en samt er um að ræða dýrasta kosningaloforð Íslandssögunnar.
Frá því að læknar hófu verkfallsaðgerðir sínar hefur um 300 aðgerðum á Landspítalanum verið frestað, ef verkfall þeirra kemur hins vegar að fullu til framkvæmda er áætlað að fresta þurfi allt að 700 aðgerðum á spítalanum. Í bakherberginu er velt vöngum yfir forgangsröðun stjórnvalda.
Það er kannski til marks um súran veruleika á Íslandi þessi dægrin, að sama dag og stjórnvöld útdeila peningum úr ríkissjóði til hluta almennings, er boðað til mótmæla á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið.