Fólk í bakherberginu er ánægt með gott gengi sjávarútvegsfyrirtækja, en spyr að því hvort stærstu hluthafar þeirra fyrirtækja sem eru að skila bestu afkomunni í greininni geti hugsanlega beitt sér fyrir því að fyrirtækin styðji við nýsköpun og frumkvöðlastarf í atvinnulífinu, í meira mæli.
Íslenskt atvinnulíf er margbreytilegt, en eitt hefur ekki breyst svo mikið. Það er eignarhald á stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Það má nefna dæmi um Ísfélag Vestmannaeyja, Samherja, Skinney-Þinganes, Síldarvinnsluna, Vinnslutöðina í Vestmannaeyjum og raunar fleiri fyrirtæki. Samanlagður árlegur hagnaður þessara ágætu fyrirtækja hefur verið vel á þriðja tug milljarða króna undanfarin ár, en eignarhaldið er í sumum þeirra bundið við fáar fjölskyldur.
Þetta eru vissulega vel rekin fyrirtæki, en það mætti hugsa sér að þau sýndu gott fordæmi og opnuðu á að nýta hluta af árlegum hagnaði beint í nýsköpunarstarf í atvinnulífinu, t.d. í sjávarútvegstengdum verkefnum. Þau gera það myndarlega, en betur má ef duga skal. Ef að þessi stærstu fyrirtæki myndu ákveða að gera þetta, með því að taka t.d. einn tíunda af árlegum hagnaði í slíkar fjárfestingar, þá myndu tveir til þrír milljarðar króna fara í nýsköpunarstarf og frumkvöðlastarfsemi, bara frá þessum fyrirtækjum sem hér eru nefnd.
Fólkinu í bakherberginu finnst þetta umhugsunarefni, og eitthvað sem fólkið sem á þessi útgerðarfyrirtæki mætti taka til skoðunar. Það væri aðdáunarvert og til fyrirmyndar ef peningarnir úr sjávarútvegnum tækju að streyma í nýsköpunarstarfið, í meira mæli en nú er.