Í bakherberginu telja menn sig geta séð fyrir atburði á nýju ári. Á meðal þeirra er pólitískur bardagi um verðtrygginguna. Þar munu mætast Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Innan Sjálfstæðisflokksins er enginn vilji til þess að afnema verðtrygginguna, þvert á móti hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og efnahags- og fjármálaráðherra, talað fyrir nauðsyn þess að lántakendur hafi val um að taka verðtryggð og óverðtryggð lán, eins og raunin er nú. Þá hefur einn þingmanna flokksins, Vilhjálmur Bjarnason, verið beinlínis kenndur við verðtrygginguna (Villi verðtrygging). Svo mikill stuðningsmaður hennar er hann.
Innan Framsóknarflokksins er alveg skýr vilji til þess að afnema verðtryggingu á fasteignaveðlánum, en heildstæð útfærsla á því hvernig húsnæðislánakerfi á að koma í stað þess sem nú er hefur ekki verið kynnt að hálfu Framsóknar eða stjórnvalda. Í bakherberginu er það rifjað upp, að það séu um margt merkileg tímamót, nú þegar áramótin nálgast, að Framsóknarflokkurinn hafi gefist upp á verðtryggingunni, um það bil einni meðallengd verðtryggðs húsnæðisláns eftir að hann beitti sér allra flokka mesta fyrir innleiðingu verðtryggingarinnar, með svokölluðum Ólafslögum 1979. Árin á eftir var verðtryggingin síðan enn frekar kirfilega fest í sessi, og þar voru ráðherrar Framsóknarflokksins ekki síst þeir sem beittu sér fyrir því. Það sama má segja um pólitíska ábyrgð á Íbúðalánasjóði, sem lánað hefur verðtryggt til kaupa á húsnæði áratugum saman, en hin pólitíska ábyrgð hefur lengst af verið undir ráðherrum Framsóknarflokksins, sé horft til síðustu 20 ára í íslenskum stjórnmálum.
Þessi umbreyting hefur raungerst á örskömmum tíma, einkum og sér í lagi með innkomu nýrra þingmanna flokksins og nýrrar forystu, með Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann fremstan í flokki. Þessi áhersla á að afnema verðtrygginguna sem flokkurinn veðjaði á sem beittasta vopnið í baráttunni við verðbólgudrauginn, fyrir 35 árum síðan, hefur reynst vel í kosningum. Stór hópur fólks kennir verðtryggingunni um ófarir hagkerfisins, en þó einkum og sér í lagi ófarir sínar, persónulega. Þessi hópur er að baki Framsóknarflokknum nú, og er til alls líklegur þegar kemur að því að banna verðtrygginguna með lögum.
Í bakherberginu telja menn að sérstaklega geti orðið mikil umræðu um þessi mál á fyrri hluta næsta árs, þegar fyrstu óverðtryggðu húsnæðislán bankanna með binditíma, tekin árið 2012 á föstum vöxtum til þriggja ára, verða á endurfjármögnunartíma. Þá mun fólk horfast í augu við það, hvort sé betra að vera með óverðtryggð lán eða verðtryggð, þegar verðbólgan er lítil sem engin eða neikvæð. Þessi staða gæti mögulega skapað annan grundvöll til að ræða verðtrygginguna en verið hefur mesta áberandi undanfarin ár, það er neikvæðar hliðar verðtryggingarinnar þegar verðbólgan er mikil.
Spennandi verður að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn leggst á árarnar með Framsóknarflokknum í þessu, eins og hann gerði þegar hin svokallaða leiðrétting var lögfest, þvert gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins. Sigmundur Davíð hefur til þessa haft gott tak á Sjálfstæðisflokknum, og í bakherberginu er því spáð að nokkuð harður bardagi muni verða á nýju ári um verðtrygginguna og hugsanlegt bann við henni, þar sem Sjálfstæðismenn muni fá liðsauka úr lífeyrissjóðakerfinu. Almenningur mun koma sér vel fyrir á áhorfendapöllunum á meðan...