Þegar ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum snemma sumars 2013 bjuggust margir við því að vendir aðhalds og hagræðingar myndu sópa um ríkisjármálin. Í október 2011 hafði þingflokkur Sjálfstæðisflokks enda lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Fyrsti flutningsmaður var Bjarni Benediktsson, formaður flokksins. Þar sagði meðal annars að ríkisrekstur væri of umsvifamikill og sem dæmi var nefnt að raunútgjöld ríkissjóðs hefðu aukist um rúm 27 prósent frá árinu 2006. „Það er því augljóslega svigrúm til að lækka útgjöldin umtalsvert,“ sagði í tillögunni.
Áhugamenn um skilvirkari rekstur ríkissjóðs glöddust enn frekar þegar stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar var gerð opinber.Þar kom fram að skipaður yrði „aðgerðahópur sem tekur til skoðunar ríkisútgjöld með það að markmiði að hagræða og forgangsraða og auka skilvirkni stofnana ríkisins“. Í hópinn voru skipaðir fjórir skeleggir þingmenn, þau Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, sem veitti hópnum formennsku. Þau skiluðu haug af hagræðingartillögum í nóvember 2013.
En áhugamönnunum brá heldur betur í brún þegar að greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrir árið 2014, fyrsta heila ár ríkisstjórnarinnar í bílstjórasætinu, lá fyrir. Þar kom í ljós að ríkisútgjöld hafi verið 629,5 milljarðar króna í fyrra, sem er 25,5 milljörðum krónum meira en fjárlög gerðu ráð fyrir. Útgjöldin jukust um 58 milljarða króna, 10,3 prósent, á milli áranna 2013 og 2014, sem er langmesta hækkun sem orðið hefur milli ára eftir hrun.
Ef aukningin á ríkisútgjöldum er skoðuð frá árinu 2011, þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram þingsályktunartillögu um að það væri „augljóst svigrúm til að lækka útgjöldin umtalsvert“ þá nemur hækkunin á ríkisútgjöldum 20 prósentum.
Í bakherberginu velta hægri menn, sem vilja "hagræða og forgangsraða og auka skilvirkni stofnana ríkisins“ því fyrir sér hvort þessi ríkisstjórn sé þeim bara sammála í orði, ekki á borði?