Í september lögðu sex þingmenn Sjálfstæðisflokks fram frumvarp um afnám lágmarksútsvars. Framlagningin vakti ekki mikla athygli miðað við þá breytingu sem þessi lagabreyting mun hafa í för með sér. Kannski hafa margir hugsað sem svo að þetta sé enn eitt tilgerðarfrumvarpið sem fyrrum stuttbuxnaliðar í Sjálfstæðisflokknum leggja fram til að sanna fyrir öðrum öldnum ungliðum hversu ægilega mikið frjálshyggjufólk þeir séu, án þess þó að raunverulegar líkur séu á að frumvarpið verði að lögum. Þau rök halda þó ekki í þetta sinn, enda er afnám lágmarksútsvars sérstaklega tilgreint í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar stendur skýrum orðum að lágmarksútsvar verði afnumið.
Í bakherberginu hefur verið mikið rætt um hvað þetta myndi þýða. Eins og lögin eru í dag þurfa öll sveitarfélög að innheimta útsvar, sem er í raun lögbundinn skattur sem rennur til sveitarfélaga til að standa undir þjónustu þeirra við íbúa, sem má að lágmarki nema 12,44 prósent af launum fólks en að hámarki 14,52 prósent. Á árinu 2014 rukkuðu einungis tvö sveitarfélög á landinu lágmarksútsvar, Skorradalshreppur (58 íbúar) og Grímsnes og Grafningshreppur (422 íbúar). Í 14 sveitarfélögum er ekki lagt á hámarksútsvar en í langflestum, alls 58 sveitarfélögum, er útsvarið í botni.
Undir lok síðasta árs fóru umsagnir um frumvarpið að berast umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Alls hafa ellefu sveitarfélög skilað inn umsögn og samkvæmt þeim er ekkert þeirra sammála því að afnema lágmarksútsvar. Ljóst er að sveitarfélögin hafa miklar áhyggjur af því að breytingin muni hafa í för með sér mikið ójafnræði, sérstaklega ef reglum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga verður ekki breytt samhliða. Þau eru þannig að stór sveitarfélög eins og til dæmis Reykjavík borga háar fjárhæðir í sjóðin sem úthlutar síðan til smærri sveitarfélaga sem hafa ekki efni á að halda úti grunnþjónustu vegna fámennis. Þannig greiða höfuðborgarbúar fyrir sína eigin grunnþjónustu og grunnþjónustu ýmissa smærri sveitarfélaga.
Til viðbótar skilaði Samband íslenskra sveitarfélaga inn umsögn sem er ansi harðorð. Þar segir m.a.: „Þar sem fámenn sveitarfélög hafa miklar tekjur af álagningu fasteignaskatts gætu þær aðstæður skapast að þau gætu lækkað álagningarhlutfall útsvars verulega eða jafnvel niður í 0% ef lágmarksútsvar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi „gervibúsetu" með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. íbúar þessara sveitarfélaga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum óháð upphæð launa.[...]Sambandinu hafa borist allnokkrar umsagnir frá sveitarfélögum, sem öll leggjast gegn samþykkt frumvarpsins. Miðað við núverandi forsendur er því engin þörf fyrir afnám lögbundins lágmarksútsvars og leggst sambandið eindregið gegn þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu“.