Bakherbergið er fastur liður í hverri viku í Kjarnanum. Þessir tveir molar eru úr nýjustu útgáfu Kjarnans.
Skuggi sólkonungs og gjöreyðingaraflið
Ólafur Arnarson sendi nýlega frá sér bókina Skuggi sólkonungs, sem fjallar um pólitískan feril Davíðs Oddssonar, baráttuna um Ísland og bankahrunið. Bókin er lipurlega skrifuð en óhætt er að segja að hún sé bein árás á allan starfsferil Davíðs. Hann er sagður mesti sökudólgurinn í hruninu. Bókin fjallar nánast ekkert um innanmein í bankakerfinu og rangar ákvarðanir stjórnenda bankanna eða meint lögbrot þeirra. Davíð er málaður upp sem pólitískt gjöreyðingarafl, þar sem rústir einar blasa við alls staðar þar sem hann á að hafa komið.
Með „réttum“ hætti
Á sama tíma og Skuggi sólkonungs kom út var þriðja ákæran gefin út á hendur stjórnendum Kaupþings. Í þetta skiptið eru hin meintu lögbrot ótrúlega mikil að umfangi. Meðal annars á hluta af neyðarláni frá skattgreiðendum upp á 500 milljónir evra að hafa verið ráðstafað með ólöglegum hætti til félaga í skattaskjólum. Tímasetningin á bókaútgáfunni er að þessu leyti svolítið merkileg, þar sem deilur Davíðs við þá Kaupþingsmenn hafa verið opinberar árum saman. Bókin er ágætis áminning um hversu margir eru að reyna að skrifa söguna með „réttum“ hætti.