Það eru fáir jafn lagnir við að setja samfélagið á hliðina með yfirlýsingum sínum og forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í gær birtist viðtal við hann á mbl.is með fyrirsögninni „Þjóðin verður að læra af lekamálinu“.
Í viðtalinu segir Sigmundur Davíð að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi þurft að þola mikið í málinu, ótrúlegt hafi verið að fylgjast með því hvað komið hefði verið fram af mikilli grimmd gagnvart henni og ættingjum hennar og að harkan í umræðunni um lekamálið sé afleiðing af hatursumræðu eftirhrunsáranna. Af þessu þurfi þjóðin að læra. Hún þurfi að hata minna.
Í bakherbergjunum hafa menn og konur klórað sér fast í hausnum yfir þessum ummælum og að hverjum þau beinast. Beinast þau að fjölmiðlunum sem hafa fjallað um lekann og þann fordæmalausa þrýsting sem ráðherrann beitti til að reyna að jarða málið? Beinast þau að lögreglunni sem rannsakaði það með þeirri niðurstöðu að aðstoðarmaður ráðherrans var ákærður fyrir lekann og ráðherrann sjálfur líklega uppvís af því að segja ósatt um málið? Beinast þau að saksóknaranum sem ákærði í málinu og fékk að lokum fram játningu sem leiddi til fangelsisdóms? Eða beinast þau að þeim tugþúsundum Íslendinga sem hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum eða öðrum vettvangi vegna þess að þeim ofbauð óheiðarleikinn og valdníðslan sem allt lekamálið opinberaði?
Hver er þjóðin sem á að læra af lekamálinu? Er hún kannski allir þeir sem eru ósammála forsætisráðherranum, misskilja hann reglulega og nenna ekki að vera hressir yfir því hversu dásamlega framsóknargrænt grasið hinum megin við hrunið er að reynast vera?
Kannski er þjóðin sá hluti Íslendinga sem flokkast ekki til „heimilanna í landinu“, sem Sigmundur Davíð og fylgismenn hans hafa verið svo áfram um að gefa peninga úr ríkissjóði. Samkvæmt niðurstöðu Leiðréttingarinnar eru heimilin í landinu um 28 prósent landsmanna. Kannski er þjóðin sem þarf að læra hin 72 prósentin sem fengu ekkert?
En kannski þarf forsætisráðherrann okkar bara að fara að tala skýrar þegar hann tjáir sig um menn og málefni. Eða gefa út orðskýringahefti til að útskýra framúrstefnulega hugtakanotkun sína.
Því þegar einhver hefur verið misskilinn nánast í hvert sinn sem viðkomandi opnar munninn í rúmlega eitt og hálft ár þá liggur vandamálið mögulega ekki í skilningsleysi eða hatri þjóðarinnar sem á hlustar.
Kannski eru það nefnilega fyrst og síðast stjórnmálamennirnir sem þurfa að læra það af lekamálinu að þeir eru ekki ósnertanlegir og lúta aðhaldi þeirrar þjóðar sem þeir sannarlega tilheyra.