Greint var frá því fyrr í kvöld að lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson væri orðinn einn eigenda Pressunnar, sem nýverið keypti um 70 prósent hlut í DV. Sigurður hafði reyndar verið lykilmaður í þeirri fléttu sem leiddi til yfirtöku hóps undir forystu Þorsteins Guðnasonar á DV fyrr í ár. Hann hefur því augljóslega haft mikinn áhuga á DV um tíma.
Í bakherberginu er rifjað upp að sá áhugi hafi líka opinberast með öðrum hætti. Sigurður hefur nefnilega verið lögmaður ýmissa aðila sem stefnt hafa DV vegna fréttaflutnings blaðsins af málum þeirra. Í janúar 2013 stefndi hann til að mynda Inga Frey Vilhjálmssyni ritstjórnarfulltrúa og blaðinu fyrir hatursáróður gagnvart Bakkavararbræðrunum Lýði og Ágústi Guðmundssonum. Ástæðan var leiðari sem Ingi Freyr hafði skrifað um arðgreiðslur til félaga í þeirra eigu fyrir hrun. Sýknað var í málinu.
Mánuði áður hafði Sigurður skrifað bloggfærslu á Pressan.is, vef sem hann á nú hlut í, um Inga Frey, með fyrirsögninni„Fréttadólgurinn Ingi Freyr!". Í færslu sem Sigurður skrifaði á sama vettvangi í haust skrifaði hann um „rannsóknarblaðamanninn og gagnsæis guttann" Inga Frey.
Sigurður sótti einnig mál sem Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir, í World Class, höfðuðu snemma á árinu 2014 fyrir það sem þau kölluðu langvinna atlögu blaðsins DV og vefsins dv.is að æru og friðhelgi einkalífs þeirra.
Það liggur því fyrir að Sigurður er ekki vinsæll á meðal magra starfsmanna DV, og þeir ugglaust ekki vinsælir hjá honum. Það kom bersýnilega í ljós á starfsmannafundi sem haldin var snemma í september, eftir að Sigurður hafði ítrekað verið yfirlýsingar um DV í fjölmiðlum og síðar mætt á stjórnarfund með kúrekahatt, sambærilegan einkennisklæðnaði fyrrum ritstjórans Reynis Traustasonar, og glottandi út að eyrum. Starfsfólki fannst Sigurður ekki hafa hagað sér með mikilli reisn og kvartaði mikið yfir honum.
Hallgrímur Thorsteinsson, þá nýráðinn ritstjóri DV, sagði m.a. á fundinum að Sigurður hefði hagað sér„fáránlega".
Í bakherberginu bíða margir spenntir eftir því að sjá hvernig Sigurði muni lynda við allt þetta fólk nú þegar það er komið í vinnu hjá honum.