Wikileaks, sem lekur gögnum, hefur farið fram á að Valitor, útgefandi VISA á Íslandi, verði tekið til gjaldþrotaskipta vegna ógreiddrar skaðabótakröfu. Sú er til komin vegna þess að Valitor lokaði greiðslugátt rekstraraðila Wikileaks í júlí 2011, en Hæstiréttur dæmdi þá lokun ólögmæta ráðstöfun í apríl 2013.
Alls fer Wikileaks, og fyrirtækið DataCell, sem átti að sjá um rekstur greiðslugáttarinnar, fram á tíu milljarða króna í skaðabætur. Eigið fé Valitor í lok árs 2013 var 7,5 milljarðar króna og því ljóst að fyrirtækið myndi ekki geta greitt slíka kröfu með góðu móti.
Í bakherberginu hafa ýmsir dundað sér við að rekja skemmtileg tengsl milli persóna og leikenda í málinu. Valitor var á þessum tíma að hluta til í eigu Landsbankans. Þeim banka var árum saman stýrt af manni sem heitir Sigurjón Þ. Árnason. Sigurjón hefur verið raðákærður (einu sinni dæmdur, tvisvar sýknaður í héraði) fyrir ýmis meint brot í starfi sínu sem bankastjóri Landsbankans. Lögmaður Sigurjóns í þeim málum hefur verið hinn skeleggi Sigurður G. Guðjónsson.
Nú vill svo til að skaðabótakrafa Wikileaks og DataCell á hendur Valitor byggir á matsgerð sem unnin var af sérfræðingi á þessu sviði. Sá sem framkvæmdi matið er títtnefndur Sigurjón Þ. Árnason. Lögmaður Valitor í málinu, sem sagði við Fréttablaðið í gær að krafan væri ekki studd neinum rökum, er Sigurður G. Guðjónsson.
Lítið land.