Fáir áttu von á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson myndi berjast fyrir því að Már Guðmundsson sæti áfram sem seðlabankastjóri, sérstaklega eftir að forsætisráðherra hraunaði yfir Seðlabankann á Viðskiptaþingi í febrúar fyrir að voga sér að reikna út áhrif skuldaniðurfellinga. Í Bakherbeginu er þó fullyrt að svo hafi verið. Framsóknarmenn gátu ekki hugsað sér Friðrik Má Baldvinsson vegna skrifa hans um Icesave-málið og andstöðu við skuldaniðurfellingar og engin stemning var fyrir hinum róttæka Ragnari Árnasyni innan flokksins. Því varð Már þeirra maður.
Skipan Seðlabankastjóra tafðist um viku. Í Bakherberginu er því haldið fram að Bjarni Benediktsson hafi ákveðið að ráða Ragnar, sem harðlínu-sjálfstæðismenn með Más-óþol vildu ólmir að fengi starfið. Hófsamari hluti flokksins vildi hins vegar ekki standa fyrir þeirri skipun og var hart tekist á um þessi mál. Á endanum náðist málamiðlun um að ráða Má áfram. Hluti hennar, og í raun forsenda, var að Már gæfi út yfirlýsingu um að hann hygðist ekki sitja allan skipanatímann, sem hann og gerði. Með því var harðlínan friðuð og opnað fyrir frekari breytingar.
Bakherbergið birtist fyrst í Kjarnanum 28. ágúst 2014.