Í bakherberginu er nú rætt um svar Sigurðar Inga Jóhannssonar, landbúnaðar-, umhverfis-, og sjávarútvegsráðherra, frá því í dag við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar um málefni sem tengjast makrílveiðum. Ein spurning Björns Vals var svona: Hefur ráðherra í hyggju að kvótasetja veiðiheimildir í makríl á skip (fastan kvóta)? Í svari Sigurðar Inga koma fram þau tíðindi að það standi til að koma fram með sérstakt frumvarp um kvótasetningu makrílsins. „Vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru um stjórn makrílveiða hefur verið til athugunar í ráðuneytinu að lagt verði fram sérstakt lagafrumvarp um hlutdeildarsetningu makrílstofnsins, sem þó mundi byggja á meginreglum laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands,“ segir orðrétt í svari Sigurðar Inga.
Í bakherberginu er það einróma álit að í þessu felist nokkur tíðindi. Líklega hefur uppboðsleiðin á kvótanum - sem að mati fólksins í bakherberginu er afbragðsleið til að komast að markaðsvirði kvótans og fá fé fyrir hann í ríkissjóð - verið slegin útaf borðinu. Eftir stendur þá spurningin um hvort það standi til að kvótasetja veiðiheimildir í makríl á grundvelli veiðireynslu.
Það má ekki gera lítið úr hagsmunum í þessu. Þeir eru gríðarlega miklir. Nýlegt uppgjör HB Granda gefur ákveðna vísbendingu um framlegðina sem hefur verið af makrílveiðunum. Hagnaður fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi nam þremur milljörðum króna, EBIDTA hagnaður nam fjórum milljörðum króna eftir veiðigjöldin, sem námu tæplega 500 milljónum króna. Makrílveiðarnar skipta þarna gríðarlega miklu máli, enda hafa útgerðir ekki þurft að fjárfesta í veiðiheimildum í makríl. Veiðigjöldin hafa lækkað umtalsvert milli ára, og ógna alls, alls, alls ekki rekstrinum. Allt tal um slíkt er aðhlátursefni að mati fólksins í bakherberginu, enda heyrist lítið í grátkór útgerðarmanna þessi misserin. Kannski er hann bara við æfingar, hver veit.
Í bakherberginu eru bæði hægri og vinstri menn, og þeir velta því fyrir sér hvort það standi nokkuð í alvörunni til að úthluta þessum veiðiheimildum á grundvelli veiðireynslu til stórútgerðanna, sem hafa gengið í gegnum mesta góðæri í sögu íslensks sjávarútvegs undanfarin ár. Er sátt um slíkt innan sjávarútvegsins? Er það skynsamlegt fyrir ríkissjóð? Og kannski síðast en ekki síst, spyr fólkið í bakherberginu hvort slíkt hafi almennt gefist vel?
Áhugaverðir tímar framundan, svo mikið er víst...