Edduverðlaunin voru veitt í gær við mikla viðhöfn í Hörpunni. Mikið hefur verið lagt upp úr því að glamúrvæða hátíðina undanfarin ár og færra þotuliðsfólk komst að en vildi. Hátíðin þótt ákaflega vel heppnuð að þessu sinni þótt vissulega heyrist alltaf raddir um að samfélag sem framleiði jafn fáar bíómyndir og sjónvarpsþætti og það íslenska beri illa að halda jafn umfangsmikla hátíð á hverju ári, enda er þorri alls efnis sem er framleitt tilnefnt.
Sjónvarpað var frá viðburðinum á Stöð 2 og hitað upp með beinni útsendingu frá rauða dreglinum, líkt og tíðkast á stórhátíðum út í heimi. Þetta var líka gert í fyrra og þá var sérstaklega verið að velta fyrir sér fatnaði fræga fólksins sem mætti á hátíðina, með frekar kjánalegri útkomu. Íslensku stjörnurnar eru nefnilega flestar venjulegt fólk með venjuleg laun og hafa ekki efni á hönnunarkjólum heldur versla í verslunarmiðstöðvum eins og restin af þjóðinni.
Í bakherberginu hafa menn hrósað Stöð 2 fyrir góða framkvæmd á útsendingunni. Hátíðin þótti skemmtileg og vel útfærð. Það vakti hins vegar athygli að Stöð 2, sem er lang stærsta einkarekna sjónvarpsstöð landsins, vann ekki ein einustu verðlaun. Mörg af helstu flaggskipum stöðvarinnar voru tilnefnd (Ísland got talent, Gulli byggir sería 3, Logi í beinni osfr.) en ekkert þeirra hlaut náð fyrir augum akademíunnar. Eina verkið með tengingu við Stöð 2 sem vann til verðlauna var heimildarmyndin Höggið, sem var sýnd á stöðinni í janúar.
Slíka náð hlutu sjónvarpsþættir og –fólk helsta samkeppnisaðila Stöðvar 2 hins vegar. RÚV, undir stjórn fyrrum sjónvarpsstjóra Stöðvar 2, Skarphéðins Guðmundssonar, vann nánast allt sem stöðin gat unnið. Ævar vísindamaður vann sem besta barna- og unglingaefni ársins, Landinn sem frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Hraunið sem leikið sjónvarpsefni ársins, Hæpið sem lífstílsþáttur ársins, Vesturfarar sem menningarþáttur ársins, Orðbragð sem skemmtiþáttur ársins og Brynja Þorgeirsdóttir frá RÚV var valin sjónvarpsmaður ársins. Til að bæta gráu ofan á svart fékk RÚV-arinn Ómar Ragnarsson heiðursverðlaun Eddunnar þetta árið.
Í bakherberginu hafa menn því haft á orði að Stöð 2 hafi í raun verið að sýna frá, og borgað fyrir, íburðarmikla uppskeruhátíð RÚV í gærkvöldi. Slíkur rausnarskapur er fátíður í hörðu samkeppnisumhverfi ljósvakafjölmiðlanna.