Davíð Oddsson, fyrrum bankastjóri Seðlabankans og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fór mikinn í Reykjavíkurbréfi sem birtist í sunnudagsútgáfu blaðsins í morgun. Hann hjó í allar áttir og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert varðandi lánveitingu á nánast öllum gjaldeyrisvaraforða Íslands, um 80 milljörðum króna, til Kaupþings sama dag og neyðarlög voru sett í landinu, hafi verið sér að kenna. Um 35 milljarðar króna af láninu skiluðu sér aldrei aftur.
Davíð sagði að Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra hefði tekið ákvörðunina um lánveitinguna, dönsk stjórnvöld hefðu fullyrt að veðið hefði verið gott og vinstri stjórnin sem bar Davíð út úr Seðlabankanum með valdi hafi síðan klúðrað því að vinna almennilega úr veðinu með þeim afleiðingum að tap skattgreiðenda varð eins og það varð.
Og svo bætti hann við: „Bankinn FIH er enn starfandi og lausleg skoðun á eigin fé bendir til að hann sé enn mun meira virði en veðskuldin var. Þeir sem eiga bankann nú virðast því mega vera mjög ánægðir með viðskipti sín við Seðlabanka Íslands.“
Þeir sem þekkja til málsins í Bakherberginu hnutu við þessa fullyrðingu Davíðs. FIH hefur nefnilega gengið afleitlega frá hruni og í maí síðastliðnum hætti fyrirtækið í raun að vera banki þegar það seldi 2/3 af viðskiptavinum sínum til Spar Nord. Í ágúst var síðan samþykkt að selja lán 24 stóra viðskiptavina til viðbótar til Nykredit-bankans. FIH lánar
Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra.
ekki lengur út fé og tekur ekki við nýjum innlánum. Frá og með marsmánuði munu innlánseigendur sem enn eiga innstæður hjá bankanum meira að segja að þurfa að borga honum fyrir að geyma peninganna sína. Eina sem eftir er af upphaflegri starfsemi FIH er fyrirtækjaráðgjöf bankans.
Það má vel vera að betur hefði verið hægt að vinna úr FIH-veðinu og að nýir stjórnendur Seðlabankans og vinstristjórnin hafi gert kostnaðarsöm mistök í því ferli. Það er raunar afar líklegt miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið í fjölmiðlum.
En í Bakherberginu eru menn sammála um að þeir sem tóku ákvörðun um að lána Kaupþingi nánast allan gjaldeyrisvaraforðann, sama dag og lög voru sett sem heimiluðu stjórnvöldum að taka yfir íslensku bankanna, á meðan að fárviðri geysaði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og tóku veð í dönskum banka sem var kallaður „peningatankur milljarðaklúbbs áhættufjárfesta“ sem fjárfestu að mestu í fasteignarþróunarverkefnum í bóluumhverfi og fóru allir strax á hausinn eftir hrun, hljóti að bera einhverja ábyrgð. Á meðal þeirra er Davíð Oddsson.
Seðlabankinn hefur hins vegar gefið það út að bankinn hafi borið ábyrgð á láninu til Kaupþings, ekki Geir H. Haarde. Bæði Davíð og Geir neituðu að ræða við fréttastofu RÚV um málið fyrr í kvöld.
Því er almenningur í raun enn án vissu um hver það var sem tapaði 35 milljörðum af skattfé hans. Og margítrekuð krafa um að upptaka af símtali Davíðs og Geirs þann 6. október 2008 verði birt strax enn jafn sjálfsögð og áður.