Nú eru að koma jól og rólegheit framundan í pólitíkinni, að minnsta kosti á yfirborðinu. Það er nefnilega oft svo að tíminn í hátíðarládeyðunni er nýttur í alls konar makk sem stjórnmálamennirnir komast oft ekki almennilega upp með þegar vökul augu andstæðinga og fjölmiðla fylgja þeim hvert fótspor.
Í ljósi þess að framundan er framkvæmd áætlunar um afnám hafta, og samhliða henni sala á eignarhlut kröfuhafa í nýju bönkunum, rifjaðist upp í bakherberginu sagan af því þegar vinstri stjórnin var að reyna að finna nýja eigendur af þeim einhvern tímann í kringum áramótin 2011/2012.
Á þeim tíma var ríkisstjórnin búin að gera nokkrar tilraunir til að „finna“ hentuga eigendur að Íslandsbanka og Arion banka á árunum eftir hrun. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafði sérstakan áhuga á því að að minnsta kosti annar bankanna yrði seldur til norræns banka. Hann nýtti meðal annars sterk sambönd sín í norskri pólitík til ýta undir þann áhuga. Auk þess reyndi hann að fá Svein Harald Øygard, sem til skamms tíma var settur seðlabankastjóri á Íslandi en er í dag einn framkvæmdastjóra ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company á Norðurlöndum, til að vinna málinu brautargengi fyrir sig.
Steingrímur fylgdist mjög vel með því ferli og átti meðal annars leynifund með UBS í New York til að reyna að sigla málinu í höfn.
Svissneski bankinn UBS var fenginn til að vera milliliður í þessum umleitunum og hafa umsjón með söluferli ef slíkt myndi skapast. Um tíma, í lok árs 2011 og byrjun árs 2012, leit út fyrir að ýtni Steingríms ætlaði að bera árangur. DnB, stærsti banki Noregs, virtist vera áhugasamur um að kaupa Íslandsbanka. Steingrímur fylgdist mjög vel með því ferli og átti meðal annars leynifund með UBS í New York til að reyna að sigla málinu í höfn. DnB er í rúmlega þriðjungseigu norska ríkisins og því hefði óneitalega skapast sérkennileg staða ef kaupin hefðu gengið eftir. Erlent þjóðríki hefði þá orðið óbeinn eigandi að íslenskum banka.
Á endanum kólnaði þó áhuginn og enn sem komið er eiga þrotabú Glitnis og Kaupþings ennþá sitthvoran bankann á íslenska markaðnum, eins sérkennilegt og það hljómar.