Í síðustu viku var tilkynnt að MP banki og Straumur hafi náð samkomulagi um samruna bankanna tveggja. Vonir stjórnenda og hluthafa standa til þess að hægt verði að ljúka sameiningu þeirra á allra næstu misserum.
Ljóst er að samruninn er skynsamlegt skref enda ljóst að hagræðingar er þörf í íslenskum fjármálaheimi. Í bakherberginu hafa menn hins vegar dundað sér við að setja samrunann í pólitískt samhengi.
Þannig er mál með vexti að starfsmenn MP banka hafa verið í miklu uppáhaldi hjá sitjandi stjórnvöldum. Þeim þykir mikið til hæfileika þeirra koma og hafa þar af leiðandi ráðið þá til að sinna trúnaðarstörfum í stærstu verkefnum sem ríkisstjórnin hefur ráðist í. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, var til að mynda formaður sérfræðingahóps sem vann tilögur um niðurfærslur á verðtryggðum lánum. Sigurður er einn nánasti ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
Benedikt Gíslason, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs MP banka, var ráðinn aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra í nóvember og hefur verið hans helsti ráðgjafi varðandi skref í átt losun hafta.
Bæði Sigurður og Benedikt eru í nýjum hópi á vegum stjórnvalda sem hefur það hlutverk að hrinda í framkvæmd tillögum um losun hafta. Í þann hóp bættist nýverið Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, yfirlögfræðingur MP banka. Þá er Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, mágur forsætisráðherra.
Á sama tima hefur fyrirtækjaráðgjöf MP banka unnið fyrir slitastjórn Glitnis um útfærslur á því hvernig hún geti klárað nauðasamning sinn. Slitastjórnin vinnur vitaskuld fyrir erlenda kröfuhafa.
Við þá hefur Straumur fjárfestingabanki líka átt náin tengsl. Bankinn var lengi í eigu ALMC, eignarstýringarfyrirtækis sem stofnað var utan um eignir gamla Straums. Það er meðal annars í endanlegri eigu nokkurra stærstu kröfuhafa föllnu íslensku bankanna. ALMC seldi allan hlut sinn í Straumi í fyrrasumar en samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er það enn með heimilisfesti í Borgartúni 25, á 7. hæð, þar sem Straumur fjárfestingabanki er líka til húsa.
Einn helsti ráðgjafi kröfuhafa á Íslandi er talinn vera Óttar Pálsson, lögmaður á LOGOS. Hann var forstjóri Straums í tvö ár, frá mars 2009 til mars 2011. Sjónvarpsþátturinn Eyjan greindi frá því í fyrrasumar að Jeremy Lowe, áhrifamesti einstaklingurinn í hópi kröfuhafa sem oft er kallaður „Herra Ísland“, fundi oft með ýmsum í húskynnum Straums.
Í bakherberginu tala menn því um að með samrunanum sé uppáhaldsbanki ríkisstjórnarinnar og uppáhaldsbanki erlendu kröfuhafanna að renna saman í eina sæng. Kannski muni sá samruni flýta fyrir afnámi hafta.