Það hefur vart farið framhjá neinum að fasteigna- og leiguverð hefur rokið upp í „gömlu-Reykjavík“: miðborginni og hverfunum í kringum hana á borð við Laugardalinn, Vesturbæinn og Hlíðarnar. Þessi staða hefur gert það að verkum að ungt fólk, sérstaklega í skapandi geirum sem gefa oft af sér lægri og stopulli tekjur, þarf að leita í önnur hverfi til að finna íbúðir af þeirri stærð og á því verði sem það ræður við.
Í Bakherberginu hefur verið mikið pælt í því hvaða hverfi það verður sem hipsterarnir og trendsettararnir, móðins fólkið sem hefur ekki lengur efni á að búa í „gömlu-Reykjavík“ muni renna á lyktina af og taka yfir. Ólíklegt verður að teljast að nýju úthverfin á höfuðborgarsvæðinu, með sínum gráu og persónuleikalausu íbúðaklumpum, þjónustu- og menningarleysi og allt of mörgu hringtorgum muni höfða til þessa hóps.
Það vakti athygli þaulsetinna Bakherbergis-makkara þegar opinberað var nýverið að sjóðir GAMMA, sem hefur fjárfest í yfir 400 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fyrir meira en sjö milljarða króna undanfarin ár, hafi fjárfest í yfir 40 íbúðum í Fella- og Seljahverfi Breiðholtsins. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Sölvi Blöndal, fyrrum rokkstjarna sem nú stýrir fasteignasjóðum GAMMA, að um álitleg fjölskylduvæn hverfi sé að ræða, með hagkvæmum íbúðum, sem eftirspurn sé eftir á markaðnum. Sölvi telur Breiðholtið hafa verið verulega undirverðlagt fram til þessa. „Hvort sem þú lítur til staðsetningar, uppbyggingar eða viðhalds íbúða, þá er margt mjög spennandi við Breiðholtið“. Það virðist því steinliggja fyrir yfirtöku unga og skapandi fólksins.
Brooklyn hefur risið uppúr öskutóni þess að vera mjög óeftirsóknarverður staður til að búa á í að verða einn mest móðins staður jarðar.
Í Bakherberginu er því nú ekki talað um annað en Breiðholt sem mögulegt Brooklyn Íslands. Á árum áður, sérstaklega frá 1970 til 1995, var Brooklyn hverfið í New York nefnilega heimili glæpa, fíkniefna og félagslegar framfærslu, stimpla sem Breiðholtið kannast allt of vel við að fá frá þeim sem þekkja illa til.
Á tæpum 20 árum hefur Brooklyn umbreyst úr ömurlegheitapytti yfir í einn svalasta og mest móðins stað heims til að búa á og hipsterar heimsins flykkjast þangað til að opna fyrirtækin sín, leggja tískustrauma, skapa listina sína og láta almennt til sín taka. Lykillinn að því var sá að Manhattan-eyjan í New York varð of dýr fyrir þennan hóp sem flykktist þess í stað til Brooklyn. Alveg eins og miðborgin og nærliggjandi hverfi eru að verða fyrir sama hóp á Íslandi. Breytingar eru því yfirvofandi og Breiðholtið gæti vel verið komið á sinn Brooklyn stall á næstu árum.