Í bakherberginu er töluvert rætt um hið pólitíska landslag eftir að niðurstöðurnar úr hinni svokölluðu leiðréttingu voru kunngjörðar. Sérstaklega er það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem er til umræðu og þá einkum næstu leikir ríkisstjórnar hans þegar kemur að stríði hans gegn vogunarsjóðunum í kröfuhafahópi slitabúanna. Hann virðist hafa mjög einbeittan vilja til þess að ná í fé frá þeim. Eins ótrúlegt og það hljómar þá er það mat manna í bakherberginu að staða Sigmundar Davíðs hafi styrkst nokkuð við Lekamálið svokallaða. Öll spjót beinast nú að Sjálfstæðisflokknum og hvernig hann muni leysa úr erfiðri stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Á meðan nýtur Sigmundur Davíð þess að hafa kynnt leiðréttinguna, og undirbýr næstu skref þegar kemur að afnámi eða rýmkun fjármagnshafta. Sigmundur Davíð virðist vera öruggur um það að ríkissjóður geti komið vel út úr uppgjöri slitabúanna og úrlausnarefnum sem þeim tengjast. Það eru risaupphæðir sem eru í spilunum. Ríkissjóður gæti fengið mörg hundruð milljarða, eða miklu minna. Allt eftir því hvernig til tekst. En svo virðist sem Sigmundur Davíð sé með skýra afstöðu um að gefa kröfuhöfum og aflandskrónueigendum engan forgang þegar kemur að því að fara út úr fjármagnshaftahagkerfinu með peninga og að íslenskt lagaumhverfi sé alveg skýrt um að engin sérmeðferð sé í boði. Ef þetta tekst vel hjá Sigmundi Davíð og ríkisstjórn hans, þá gæti hann staðið uppi sem mikill pólitískur sigurvegari með pálmann í höndunum að mati manna í bakherberginu. Miklir tímar framundan...