Íslensk stjórnmál leika á reiðiskjálfi eftir einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að eyða stöðu Íslands sem umsóknarríkis að Evrópusambandinu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra framfylgdi þeirri ákvörðun í gær.
Öllum með augu og eyru er ljóst að með þessu eru leiðtogar beggja stjórnarflokkanna að svíkja þau loforð sem þeir gáfu í aðdraganda síðustu kosninga, þegar þeir lofuðu ítrekað að þjóðin fengi að kjósa um málið.
Til að bæta gráu ofan á þá staðreynd að þjóðin verði ekki höfð með í ráðum í þessu risastóra hagsmunamáli þá ákvað ríkisstjórn nú að hún þyrfti hvorki að hafa samráð við Alþingi Íslendinga né utanríkismálanefnd um málið heldur. Þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fengu að vita af málinu tveimur dögum eftir að ákvörðun var tekin um það og stjórnarandstaðan heyrði fyrst af því í fréttum fjölmiðla. En stjórnarherrarnir hafa leitt kvak þessarra aðila hjá sér. Að þeirra mati var það bara „common sense“, fyrst ríkisstjórnin væri á móti Evrópusambandsaðild, að hætta þessu ferli án þess að spyrja kóng né prest.
Í bakherberginu hafa reyndar heyrst efasemdir um að ekki hafi verið haft samráð við neinn við gerð tillögunar. inni í stjórnarráðinu. „Þegar tekið er mið af hvað ráðherrarnir eiga erfitt með að svara fyrir gjörninginn er ljóst að tillagan hefur verið samin utan stjórnarráðsins. Ég læt lesendur um að velta fyrir sér hvaðan hún gæti hafa komið,“ sagði Valgerður.
Samsæriskenningasmiðir bakherbergisins hafa líka bent á að lítil frétt sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudag, degi áður en að Gunnar Bragi afhenti slitabréfið sitt í Slóvakíu, hafi látið í það skína hvað væri í vændum. Líkt og flestir vita hefur líkast til enginn ýtt jafn fast á viðræðuslit og Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, en til undantekninga heyrir ef Staksteinar blaðsins eru ekki lagðir undir slíkan áróður.
Það vakti líka athygli þeirra að annar svarin Evrópuandstæðingur, og fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, bloggaði um afturköllun á aðildarumsókn Íslands. síðastliðinn þriðjudag.
Getur kannski verið að forsvarsmenn stjórnarflokkanna hafi haft samráð við ýmsa valda- og hagsmunaaðila í baklandi sínu þegar þeir voru að kokka upp viðræðuslitin sem þeir þora ekki með fyrir þingið?