Í bakherberginu furðar fólk sig á því að gengið hafi verið framhjá Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar og þingkonu Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi, við val á ráðherra í ríkisstjórn. En samt ekki. Það var orðið ljóst fyrir nokkru síðan að Sigmundur Davíð hafði augastað á annarri þingkonu í liði Framsóknar en henni í ríkisstjórnina. Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokksins Framsóknarflokksins til þessa, verður næsti umhverfis- og auðlindaráðherra.
Vigdís sótti það stíft að verða ráðherra eftir kosningasigur Framsóknarflokksins í síðustu kosningum, og í bakherberginu er það rifjað upp að Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins, hafi móast í forystu flokksins fyrir hennar hönd. En án árangurs.
Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar Vigdís fór að gagnrýna harðlega kjördæmisskipan í landinu í Morgunblaðinu í dag (þó hún hafi kannski mikið til síns máls!) og að það þyrfti að breyta landinu í eitt kjördæmi. Þetta er atriði á nánast engan hljómgrunn í Framsóknarflokknum og hefur flokkurinn raunar lifað enn betra lífi vegna þess hvernig landinu eru skipt upp í kjördæmi. Í bakherberginu telur fólk augljóst að þarna sé Vigdís í Albaníu-taktíkinni; þegar hún sé að beina spjótunum að kjördæmisskipan þá sé hún í reynd að gagnrýna Sigmund Davíð og forystu flokksins fyrir að skipa sig ekki ráðherra. Spurning hvort þetta sé rétt mat? Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör...