Fólkið í bakherberginu man vel eftir því, þegar rannsóknarnefnd um starfsemi íslensku lífeyrissjóðina og lagalegt umhverfi þeirra, skilaði skýrslu sinni og kynnti hana á fundi á Grand Hótel. Andrúmsloftið var rafmagnað. Síðan voru niðurstöðurnar kynntar. Þær komu ekki mikið á óvart. Ein niðurstaðan, sem var óumdeild, var að lífeyrissjóðirnir töpuðu meira en 250 milljörðum króna á fjárfestingum sem tengdust Exista og tengdum félögum annars vegar, og síðan á Baugi og tengdum félögum hins vegar. Tapið vegna Baugs og tengdra félaga nam 77 milljörðum króna, samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar.
Hjá Baugi var Jón Ásgeir Jóhannesson með alla þræði í hendi sér sem kunnugt er. Baugur er nú gjaldþrota, en lýstar kröfur í búið námu um 400 milljörðum króna, en aðeins lítið brot af því var til í rústum bússins. Sviðin skuldjörð einkennir reyndar flest þau félög sem Jón Ásgeir tengdist fyrir hrunið, og um tíma voru næstum allar lánastofnanir landsins með kröfur á hendur félögum sem hann tengdist, nema hugsanlega LÍN og Byggðastofnun.
Þetta breytti engu um það, að lífeyrissjóðirnir hafa nú farið í samstarf inn í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum sem lengi hefur verið fjölskyldufyrirtæki hans. Þeir eiga nú orðið stóran hlut í félaginu á móti eiginkonu Jóns Ásgeirs, Ingibjörgu Pálmadóttur. Sjóðirnir sem hafa nú lagt 365 til hlutafé, með sameiningunni við Tal, eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Stapi lífeyrissjóður, Stafir lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Almenni lífeyrissjóðurinn, Vinnudeilusjóður SA, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, svo einhverjir séu nefndir.
Fólkið í bakherberginu klórar sér í hausnum yfir þessu og veltir því fyrir sér hvort það sé nokkuð fyrir hendi einbeittur vilji til þess að tapa peningum hjá lífeyrissjóðunum. En um leið vonar það bara að þetta muni ganga betur en síðast þegar lífeyrissjóðirnir lögðu peninga til félaga sem tengdust Jóni Ásgeiri. Langar skýrslur með samantektum á frumgögnum eru til vitnis um það, að nokkur hætta sé á því að peningar sjóðfélaga geti tapast.