Þegar steypa er mótuð sem staðreynd

Auglýsing

Víglundur Þorsteinsson steig nýverið fram í þriðja sinn á rúmum þremur árum og sagði fyrirtæki og heimili landsins hafa verið rænd um 300-400 milljarða króna þegar samið var við kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um endurreisn íslenska bankakerfisins. Í þetta sinn voru settar fram ásakanir um stórfelld brot á hegningarlögum og stjórnarskrá, án þess að ásakanirnar væru reyndar studdar neinu öðru en gífuryrðum.

Víglundur sagði að stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum og starfsmenn eftirlitsstofnana hafi tekið sig saman í þessu samsæri gegn þegnum landsins. „Stofnúrskurðir“ Fjármálaeftirlitsins (FME) um stofnun nýju bankanna þriggja, sem „nýr lítill símamaður“ lak til hans, staðfesti þetta.

Hvað er til í ásökunum Víglundar?

Í stuttu máli þá eru þessar ásakanir algjör steypa.

Auglýsing

Íslenska bankakerfið hrundi í október 2008 og sett voru neyðarlög. Þau gerðu eignir allra hluthafa í bönkunum þremur sem FME tók yfir að engu. Þeir töpuðu þúsundum milljarða króna. Þau breyttu líka kröfuröð til að tryggja að allar íslenskar innistæður nytu forgangs og loks voru teknar, með ríkishandafli, eignir úr þrotabúum þessara banka og færðar inn í nýja með innistæðunum. Þeir sem höfðu lánað íslensku bönkunum pening, að mestu þýskir bankar, töpuðu nokkur þúsund milljörðum króna en áttu að geta fengið brot af þeirri upphæð til baka þegar þrotabúin yrðu gerð upp.

Haustið 2008 var ómögulegt að átta sig á hvert virði þeirra eigna (aðallega lána til íslenskra fyrirtækja og heimila) sem færðar voru yfir til nýju bankanna var. Um 70 prósent af íslensku atvinnulífi var þá í miklum fjárhagsvanda og þurfti á endurskipulagningu að halda.

Í neyðarlögunum var sérstaklega tekið fram að FME væri heimilt „að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuldbindingum fjármálafyrirtækis og láta meta verðmæti eigna og ráðstafa þeim til greiðslu áfallinna krafna eftir því sem þörf krefur“. Það var því ljóst frá byrjun að þær eignir sem teknar voru úr þrotabúunum yrðu metnar og síðan yrði greitt fyrir þær.

FME jarðar Víglund

Það sem Víglundur kallar „stofnúrskurði“ FME, og á að hans mati að vera grunnur allra afskrifta, eru það ekki. Í nýrri tilkynningu eftirlitsins segir, líkt og hefur reyndar lengi legið fyrir, að þau drög að stofnefnahagsreikningum nýju bankanna þriggja sem birtir voru á heimasíðu þess 14. nóvember 2008, hafi verið einmitt bara verið drög. Einn sem kom að þessari vinnu á sínum tíma sagði við greinarhöfund að það að setja saman svona reikning á þessum tíma væri svipað og að reyna að giska á lottótölurnar næsta laugardag.

Í tilkynningu FME segir að „upphafleg ákvörðun FME gerði beinlínis ráð fyrir að virði eigna sem nýju bankarnir tóku yfir gæti tekið breytingum í samræmi við mat viðurkennds matsaðila sem FME skipaði.“

Í mjög stuttu máli gerðist síðan eftirfarandi: óháðir aðilar voru ráðnir til að meta eignirnar, á grunni þess mats var farið í að semja við kröfuhafanna um að taka við eignarhlutum í nýju bönkunum (enda átti ríkið hvorki pening til að leggja þeim til eigið fé né borga fyrir mismun á virði þeirra eigna sem færðar voru með handafli yfir í nýju bankanna) svo þeir gætu farið að endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf. Í þeirri endurskipulagningu fengu íslensk fyrirtæki og heimili mörg hundruð milljarða króna afskriftir af skuldum sem þau gátu ekki borgað.

Dauðalistinn?

Víglundur hélt fyrsta blaðamannafund sinn í þessari krossferð sinni síðla árs 2012. Þá sagði hann að harðar hafi verið gengið fram gegn honum en öðrum skuldurum Arion Banka þar sem hann og BM Vallá hefðu verið á sérstökum lista innan bankans. Lista yfir lífvænleg fyrirtæki sem bankinn hefði ákveðið, af óbilgirni, að taka af eigendum sínum. Svokallaður „Dauðalisti“.

Nú er vert að rifja upp að BM Vallá var úrskurðað gjaldþrota í maí 2010. Skuldir þess þá voru um tíu milljarðar króna og eigið féð neikvætt um 2,5 milljarða króna. Stjórnendur fyrirtækisins höfðu lagt fram endurreisnarhugmynd sem í fólst að lánastofnanir ættu að afskrifa 4.725 milljónir króna af skuldum félagsins auk þess sem gefin yrðu út 2,6 milljarðar króna af nýjum skuldabréfum, sem Arion banki og lífeyrissjóðir áttu að kaupa. Víglundur átti samt sem áður áfram að eiga félagið. Þessu var, eðlilega, hafnað og bankinn gekk að veðinu, BM Vallá.

Víglundur var ekki einn um að telja sig hafa verið á dauðalistanum. Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi 365 miðla og núverandi eiginmaður aðaleiganda 365 miðla, tók undir með Víglundi

Víglundur var ekki einn um að telja sig hafa verið á dauðalistanum. Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi 365 miðla og núverandi eiginmaður aðaleiganda 365 miðla, tók undir með Víglundi í aðsendri grein í Fréttablaðinu 1. september 2012. Þar sagði hann að fjölskylda hans hefði misst smásölurisann Haga vegna þess að þau hafi  verið á listanum. Gjaldþrot Baugs, helsta fjárfestingabatterís Jóns Ásgeirs, er eitt stærsta gjaldþrot einkafyrirtækis í Íslandssögunni. Lýstar kröfur í búið voru um 400 milljarðar króna en um 100 milljarðar voru samþykktir. Af þeim er búist við að á bilinu 1-16 prósent, endurheimtist. Félagið 1998 ehf., sem átti Haga, skuldaði á sjötta tug milljarða króna í lok árs 2010.

Umræddur listi er enginn dauðalisti og hann er ekkert leyndarmál. Þvert á móti má lesa um hann í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu mála á Íslandi og í efnahagsreikningum bankanna. Hjá Arion banka var um að ræða 40 stór lán bankans sem voru færð yfir til hans á lágu eða engu verði gegn því að auknar endurheimtir myndu skiptast á milli þrotabús Kaupþings og nýja bankans. Því meira sem myndi koma inn, því meira myndu báðir aðilar græða. Sambærilegt samkomulag var við lýði í báðum hinum nýju bönkunum, þótt munur hafi verið á útfærslum.

En forsætisráðherra segir það!

Það er eitt að Víglundur Þorsteinsson og Jón Ásgeir Jóhannesson væli eins og stungnir grísir yfir þeirri ósanngirni að þeir missi fyrirtækin sín þegar þau eru búnir að reka þau ofan í jörðina. En málið breytist töluvert þegar forsætisráðherra tekur undir þessar dæmalausu ásakanir.

Á sama tíma og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var að undirbúa opinn fund um fordæmalausa niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra, hafi sýnt af sér stórfellda valdníðslu í lekamálinu, mætti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í útvarpsviðtal í uppáhaldsútvarpsþáttinn sinn, Ísland í bítið, til að tjá sig um ásakanir Víglundar.

Hann var ekki spurður að einni spurningu um niðurstöðu umboðsmanns, sem er með stærstu pólitísku tíðindum í íslenskri samtímastjórnmálasögu. Í kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvar 365 miðla sama dag var niðurstaða umboðsmanns reyndar líka önnur frétt, á eftir ásökunum Víglundar, hvað svo sem olli því fréttamati.

En forsætisráðherra sagði að ásakanir Víglundar væru við fyrstu sýn býsna sláandi. Það þyrfti að rannsaka þær. Hugmynd hans um leiðréttingu verðtryggðra lána ætti einmitt rætur sínar í þessum eignatilfærslum sem Víglundur væri að fetta fingur út í og þetta sýndi að fé hefði verið tekið af fólki. „Það er verið að gefa kröfuhöfum peningana. Það er eitthvað sem er ekki hægt að horfa framhjá,“ sagði forsætisráðherra íslensku þjóðarinnar. Aðspurður hvort það hafi verið ráðherra og opinberir starfsmenn sem hafi gert þetta svaraði Sigmundur Davíð: „Já, það er það sem maður les út úr þessu.“

Rændu stjórnmálamenn almenning?

Forsætisráðherra tók þannig undir ásakanir um að stjórnmálamenn, starfsmenn ráðuneyta og eftirlitsstofnana hefðu vísvitandi haft mörg hundruð milljarða króna af íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Nú skulum við aðeins skoða hverjir það eru sem sitja undir þessum ásökunum um að hafa brotið gegn hegningarlögum og stjórnarskrá.

Miðað við málflutning Víglundar hlýtur það í fyrsta lagi að vera ríkisstjórn Geirs H. Haarde, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Viðræður um að kröfuhafar myndu eignast hlut í nýju bönkunum hófust nefnilega í tíð hennar, mjög fljótlega eftir bankahrunið. Það var ekkert leyndarmál. Um þetta var talað opinberlega.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, kom til dæmis í sjónvarpsviðtal á RÚV 3. desember 2008. Þar sagði hann að ríkisstjórnin vildi bjóða erlendum kröfuhöfum hlut í nýju bönkunum og að tveir vinnuhópar á vegum fjármálaráðuneytis og skilanefnda gömlu bankanna væru að vinna að útfærslu á þessu. Formlegar viðræður við kröfuhafanna myndu hefjast 11. desember 2008. Margt mælti með því að erlendir kröfuhafar myndu eignast hlut í íslensku bönkunum. Þáverandi fjármálaráðherra var Árni Mathiesen, Sjálfstæðisflokki.

Í öðru lagi er það síðan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók við 1. febrúar 2009 og var varin fram að kosningum af Framsóknarflokki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Í þriðja lagi hljóta það að vera þeir starfsmenn og ráðgjafar í fjármálaráðuneytinu sem komu að samningaviðræðum við kröfuhafa. Í fjórða lagi eru það síðan allir starfsmenn FME og Seðlabanka Íslands sem komu að þessum viðræðum frá haustinu 2008. FME var undir stjórn Jónasar Fr. Jónssonar, sem nú situr í umboði Sjálfstæðisflokksins sem stjórnarformaður LÍN, og Seðlabankinn undir stjórn Davíðs Oddssonar, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar fyrstu skrefin í þessum samningaviðræðum voru stigin.

Orðum fylgja ábyrgð

Mjög athyglisvert verður að heyra með hvaða augum Bjarni Benediktsson lítur málatilbúnað forsætisráðherra um að ríkisstjórn undir forsæti fyrrum formanns flokks hans, embættismenn í ráðuneytinu sem hann stýrir og eftirlitsstofnanir undir stjórn manna með náin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn sem voru skipaðir af ráðherrum hans hafi tekið þátt í risavöxnu samsæri með vondu vinstristjórninni um að hafa 300-400 milljarða króna af íslenskum heimilum og fyrirtækjum. Hann hefur hins vegar enn ekki tjáð sig um orð Sigmundar Davíðs, þótt hann hafi sagst opinberlega efast um fullyrðingar Víglundar um lögbrot.

Íslendingar steiktu útlendinga með neyðarlagasetningunni. Hún gekk undir nafninu „Operation fuck the foreigners“ á meðal sumra þeirra sem að henni komu. Útlendingar, erlendir kröfuhafar, töpuðu ævintýralegum fjárhæðum á þessari aðgerð okkar sem heimilaði íslenska ríkinu að taka með valdi eignir af einkaaðilum. Og við komumst upp með þessa aðgerð og á grunni þess hefur okkur tekist að endurreisa íslenskt efnahagskerfi og viðhalda íslenskri samfélagsgerð. Allar þær ríkisstjórnir sem setið hafa frá hruni eiga sinn þátt í þeim árangri, þótt þær hafi allar gert mistök á leiðinni. Og líklega á enginn meira í þeim árangri en ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem bar ábyrgð á neyðarlagasetningunni.

En að ætla stjórnmálamönnum og embættismönnum að hafa rænt íslensku þjóðina með hagsmuni einhverra vogunarsjóða að leiðarljósi er forkastanleg ásökun.

Og það hljóta að verða pólitískar afleiðingar af henni.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None