Samkvæmt dómi EFTA-dómstólsins, frá því í morgun, er ekki heimilt að miða við 0 prósent verðbólgu við útreikning á heildarlántökukostnaði ef verðbólgan er hærri eða lægri en sú tala.
Niðurstaðan gæti haft ótrúlega víðtæk áhrif. Horfi Hæstiréttur Íslands til fyrstu málsgreinar 14. greinar gömlu laganna okkar um neytendalán, verða öll neytendalán ólögmæt og verðbætur vegna þeirra þarf þá væntanlega að endurgreiða. Það gæti þýtt að lánveitendur þurfi að borga til baka allar verðbætur vegna fasteignalána, bílalána, yfirdráttalána og annarra verðtryggðra neytendalána sem tekin hafa verið frá því að tilskipun Evrópusambandsins var innleidd, árið 1994. Fasteignalán voru sömuleiðis felld undir hana árið 2000.
Undir eru hundruð, ef ekki þúsundir, milljarða króna.
Í bakherberginu er talað um hvort ríkið og lánveitendur hafi vitað upp á sig sökina. Í ljósi þess að lögum um neytendalán var breytt á Íslandi í fyrra, en samkvæmt nýju lögunum á hlutfallslegur kostnaður verðtryggðra lána ekki að miða lengur við 0 prósent, heldur ársverðbólgu síðustu tólf mánuði. Í bakherberginu er því haldið fram að þessi lagabreyting hafi valdið málarekstri íslenska ríkisins fyrir EFTA-dómstólnum, töluverðum vandkvæðum, enda breytingin í andstöðu við málarök og hagsmuni íslenska ríkisins. Varla sé hægt að tala um að vera í meiri andstöðu við sjálfan sig.
Því segja menn og konur í bakherberginu að EFTA-dómstóllinn hafi í raun bara komist að sömu niðustöðu og íslenska ríkið komst að fyrir skemmstu, að það megi ekki miða við 0 prósent við útreikning hlutfallstölu. Íslenska ríkið hafi bara verið aðeins á undan.