Hinn 11. janúar í fyrra birtist ítarleg grein eftir Brynjar Níelsson hrl. og þingmann Sjálfstæðisflokksins, um Al Thani-málið svokallaða, á vefnum pressan.is. Þetta er langsamlega ítarlegasta grein sem birst hefur á opinberum vettvangi eftir Brynjar, frá því að hann varð þingmaður. Raunar minnist fólkið í bakherberginu ekki þess að nokkur þingmaður hafi skrifað jafn langa og ítarlega grein um nokkurt mál, eins og tilfellið var með grein Brynjars.
Í greininni rökstuddi Brynjar þá skoðun sína að allir ákærðu í málinu væru saklausir, þar sem sekt þeirra hefði ekki verið sönnuð. „Ég get hins vegar metið það út frá fyrirliggjandi gögnum hvort sekt sé sönnuð. Eins og ég hef rakið hér og rökstutt eru gögn málsins ekki þannig að sekt ákærðu sé sönnuð svo yfir skynsamlegan vafa sé hafið. Í raun tel ég langt frá því að svo sé,“ sagði Brynjar, í þessari ítarlegu grein.
Nú hefur Hæstiréttur kveðið upp dóm sinn í málinu, og í sem skemmstu máli sagt, þá reyndust allar lögfræðilegar ályktanir Brynjars, út frá gögnum málsins, vera rangar. Allir ákærðu voru dæmdir sekir, og sendir í fjögurra til fimm og hálfs árs fangelsi. Hæstiréttur Íslands á lokaorðið, og fellir dóma um hvernig lög skulu túlkuð. Ekkert af því sem Brynjar sagði í grein sinni reyndist vera í takt við niðurstöðu Hæstaréttar, þegar kom að því að meta sekt eða sakleysi. Og öll röksemdarfærslan var ranglega metin út frá gögnum málsins.
Fólkinu í bakherberginu finnst þetta svolítið einkennilegt, enda gagnrýndu hæstaréttarlögmenn fjölmiðla fyrir að þagga efni greinar Brynjars niður, hvernig sem þeir fengu það út. Hún var enda töluvert mikið til umræðu í fjölmiðlum, og einnig á samfélagsmiðlum, þar sem hjartað í þjóðfélagsumræðunni slær.
Fólkið í bakherberginu er ekki refsiglatt, og finnst að fjölmiðlar eigi öðru fremur að segja fréttir af dómsmálum, eins og öðrum fréttnæmum atburðum. Ekkert bendir til annars en það hafi verið gert í Al Thani málinu, og öllum steinum velt við, einnig þeim sem hugsanlega hefðu getað komið ákærðu vel þegar þeir voru að verjast í dómsal.
Þingmenn verða hins vegar að passa sig, þegar þeir blanda sér í umræðu um einstök dómsmál, enda vinna þeir við að búa til lögin sem dómstólar dæma um túlkun á, þegar ágreiningur kemur inn á borð til þeirra. Geri þingmenn það reglulega getur það komið niður á trausti almennings á réttarríkinu.
Brynjar er oft að leggja fjölmiðlamönnum línurnar, í hnitmiðuðum greinum og stöðuuppfærslum á Facebook-síðu sinni. Fólkið í bakherberginu fagnar því, enda ekkert við það að athuga og Brynjar er oft skemmtilegur í sínum greiningum á dægurþrasinu.
Vonandi lærir Brynjar af niðurstöðu Hæstaréttar í Al Thani-málinu, og verður kannski örlítið nær veruleikanum næst þegar hann blandar sér með jafn afgerandi hætti í umfjöllun um dómsmálin.