Fyrirtaka fór fram í hinu svokallaða SPRON-máli í morgun, en aðalmeðferð í því á að hefjast í júní næstkomandi. Í málinu eru fyrrum sparisjóðsstjórinn og fjórir stjórnarmenn sparisjóðsins ákærðir af sérstökum saksóknara fyrir að hafa misnotað aðstoðu sína og stefnt fé sjóðsins í verulega hættu þegar hann lánaði fjárfestingafélaginu Exista tvo milljarða króna þann 30. september 2008. Hinir ákærðu eru Guðmundur Örn Hauksson, sparisjóðsstjóri, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, sem er forstjóri Rio Tinto Alcan, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, auk Ara Bergmanns Einarssonar og Jóhanns Ásgeirs Baldurs.
Við fyrirtökuna í morgun lögðu verjendur fram ýmis gögn í málinu. Í frétt á mbl.is segir að meðal gagna sem verjendur lögðu fram hafi verið sérfræðiálit á fjárhagsstöðu Exista þegar lánveitingin átti sér stað, sem að sögn verjenda sýnir fram á að gjaldþrot félagsins hafi alls ekki verið líklegt á þeim tímapunkti og ekki veruleg hætta á því að sú staða kæmi upp.
Í bakherberginu eru uppi ýmsar skoðanir á því hvort líklegt sé að sakfellt verði í málinu eða sýknað, og sitt sýnist hverjum. Flestir þar eru þó sammála um að staða Exista á þeim tíma sem lánið var veitt hafi ekki verið neitt sérlega beysin, svo vægt sé til orða tekið.
Fimm dögum áður en Exista fékk lánið hafði stjórn Kaupþings, sem var stærsta eigna Existu, fellt niður persónulegar ábyrgðir allra starfsmanna sinna á lánum sem bankinn hafði veitt þeim til hlutabréfakaupa. Umfang lánanna var um 50 milljarðar króna. Stjórn Kaupþings tók ákvörðunina í ljósi þess að hlutabréfaverð bankans var að falla hratt.
Auk þess hafði Glitnir verið þjóðnýttur nokkrum dögum áður en lánið var veitt og öllum með augu og eyru ljóst að víðsjárverðir tímar voru í íslensku fjármálalífi. Töluverðar líkur voru þess vegna á því að Exista, líkt og allir aðrir stórir og skuldsettir eigendur íslenskra banka, væri að stefna í þrot á þessum tíma.
Exista endaði með því að tapa 206 milljörðum króna á árinu 2008, fara í gegnum nauðasamninga og kröfuhafar félagsins reikna einungis með að fá brot af kröfum sínum til baka. Óháð því hvort lánveitingin hafi verið ólögleg eða ekki, um það skera dómstólar, þá er tekið undir þau orð endurskoðunarnefndar SPRON frá því í janúar 2009 að lánið til Exista, í miðju íslensku bankahruni, hafi verið „óheppileg lánveiting.“