Það vakti töluverða athygli í byrjun desember þegar Hrannar Pétursson, fyrrum upplýsingafulltrúi Vodafone, var ráðinn til forsætisráðuneytisins til að móta stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Það er nefnilega ekki langt síðan annars einstaklingur var ráðinn í sérverkefni á sviði upplýsingamála hjá sama ráðuneyti. Það gerðist í mars síðastliðnum og sá sem var ráðinn var Margrét Gísladóttir, sem hafði áður verið aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra.
Þau bætast nú í hóp með Sigurði Má Jónssyni, fyrrum ritstjóra Viðskiptablaðsins, sem var ráðinn sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í byrjun september 2013. Upplýsingamálin hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra ættu því að vera í toppmálum.
Til viðbótar við þessa stóð upplýsingamálasérfræðinga er Sigmundur Davíð með tvo aðstoðarmenn, þá Jóhannes Þór Skúlason, sem fylgt hefur honum frá upphafi, og alþingismanninn Ásmund Einar Daðason, sem bættist í hópinn í nóvember í fyrra og er fyrsti þingmaður þjóðarinnar til að vera ráðinn aðstoðarmaður ráðherra.
Forsætisráðherrann er líka vel haldinn varðandi efnahagsráðgjöf. Benedikt Árnason hefur starfað sem sérlegur efnhagsráðgjafi hans frá 27. ágúst 2013. Þann 1. september síðastliðinn var Lilja Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands, ráðin í tímabundna verkefnastjórn sem tengdist vinnu ráðuneytisins við losun fjármagnshafta. Ráðning Lilju, sem er dóttir Framsóknarflokksgoðsagnarinnar Alfreðs Þorsteinssonar, þótti nokkuð umdeild í ýmsum kreðsum, enda óvenjulegt að stjórnmálamenn taki lykilleikmenn úr Seðlabankanum yfir í sína pólitísku stefnumótum með þessum hætti, þar sem sjálfstæði Seðlabankans á að vera tryggt í lögum.
Samtals eru því sjö manns að aðstoða forsætisráðherrann í upplýsingamálum, efnahagsmálum og hinu almenna pólitíska amstri.
Samtals eru því sjö manns að aðstoða forsætisráðherrann í upplýsingamálum, efnahagsmálum og hinu almenna pólitíska amstri. Einungis tveir eru vitanlega titlaðir aðstoðarmenn, enda heimila lög einungis tvo slíka fyrir hvern ráðherra. Kannski veitir ekkert af öllu þessu fólki á þessum víðsjárverðu tímum sem við lifum.
Ekki er auðvelt að sjá hver kostnaður skattgreiðenda er af aðstoðarmanna- og ráðgjafafylkingu Sigmundar Davíðs utan þess að Ásmundur Einar tekur ekki viðbótargjald við þingfarakaupið fyrir að aðstoða formann sinn. Aðstoðarmenn ráðherra eru samkvæmt lögum á sömu launum og skrifstofustjórar í ráðuneytum, sem í dag eru 764 þúsund krónur auk þess sem þeir fá rúm 128 þúsund krónur fyrir fasta yfirvinnu. Heildarmánaðarlaun hvers aðstoðarmanns eru því um 893 þúsund krónur.
Þessi mikla fjölgum aðstoðarmanna og ráðgjafa spilar því ugglaust inn í það að kostnaður við rekstur Ríkisstjórnar Íslands hefur farið frá því að vera 242,5 milljónir króna árið 2013, þegar sitjandi stjórn tók við, í 339,6 milljónir króna á árinu 2015, samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.