Nú er hátíð gengin í garð. Hinsegin dagar standa yfir. Ég settist niður með dagskrárblað hátíðarinnar til að skipuleggja viku fulla af hinsegin viðburðum. Ráðstefna á mánudaginn, pallborð um kynferðisofbeldi á fimmtudaginn, hinsegin húslestrar á föstudaginn og loks sjálf gleðigangan á laugardaginn. Inn á milli dagskrárliða gluggaði ég í áhugaverðar greinar um HIV á Íslandi og hinsegin nemendur í íslensku skólakerfi. Loks rekst ég á mynd af Barack Obama Bandaríkjaforseta og aðra af myndarlegum karlmanni á miðjum aldri. Það er Robert Cushman Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem sendir mér kveðju í tilefni hátíðahaldanna.
Skilaboð sem þessi hafa birst í dagskrárriti Hinsegin daga í Reykjavík í nokkur ár, eða síðan skömmu eftir að sendiráð Bandaríkjanna hóf að láta fé af hendi rakna til hátíðahaldanna. Ákveðnir viðburðir eru eyrnamerktir sendiráðinu, t.d. kvikmyndasýningar árin 2013 og 2014, en í ár styrkir það sirkúshátíð á Klambratúni. Í fyrstu sá ég lítið athugavert við þetta samstarf sendiráðsins og Hinsegin daga. Hátíðinni er haldið uppi af frjálsum félagasamtökum sem reiða sig á vinnu sjálfboðaliða. Þau hafa mjög strangar reglur um styrki frá fyrirtækjum og banna meðal annars allar auglýsingar í gleðigöngunni sjálfri. En einhvern veginn verður að fjármagna hátíðina og því er skárra að féð fáist frá erlendu sendiráði en fyrirtæki sem krefst þess að fá að hylja dagskrárritið eða gleðigönguna með auglýsingum. Ekki satt?
Frá því að sendiráð Bandaríkjanna tók fyrst þátt í dagskrá Hinsegin daga hefur hugtakið bleikþvottur eða pinkwashing tekið að heyrast meðal hinsegin fólks á Íslandi.
Frá því að sendiráð Bandaríkjanna tók fyrst þátt í dagskrá Hinsegin daga hefur hugtakið bleikþvottur eða pinkwashing tekið að heyrast meðal hinsegin fólks á Íslandi. Það var upphaflega notað til þess að lýsa því hvernig Ísraelsríki hefur markaðssett landið sem hinsegin túristaparadís í því skyni að draga athygli fólks frá ofbeldi og mannréttindabrotum sem eru framin á vegum þess gagnvart Palestínufólki. Með bleikþvotti Ísraelsríkis er einnig dregin upp sú mynd að Palestínufólk og múslimar séu almennt andsnúnir hinsegin fólki sem breiðir yfir mikilvægt starf palestínskra hinsegin aktívista og bandamanna þeirra innan sem utan palestínsks samfélags. Hinseginvæn ímynd Ísraelsríkis verður þannig vopn í deilum þess við Palestínufólk. Í dag er þetta hugtak einnig notað til að lýsa almennt tilraunum ríkja og fyrirtækja til að skapa jákvæða ímynd með því að tengja sig á einn eða annan hátt við réttindabaráttu hinsegin fólks.
Þetta hugtak dúkkaði aftur upp nokkrum dögum eftir að ég skapaði skothelt Hinsegin daga plan og innbyrti skilaboðin frá bandaríska sendiráðinu. Þá deildi vinkona mín grein á Facebook eftir Dean Spade, aðstoðarprófessor við lagadeild Seattle-háskóla og hinsegin aktívista, þar sem hann veltir því fyrir sér hvers vegna réttindasamtök hinsegin fólks hafi tekið höndum saman með hópum sem hafa það markmið að afla stefnu Ísraelsríki fyrir botni Miðjarðarhafs stuðnings. Hann telur hinsegin samtök í Bandaríkjunum sérlega móttækileg fyrir bleikþvotti Ísraelsríkis vegna þess að sýnilegasta baráttan gegn hómófóbíu þar vestra sé íhaldssöm, einblíni á mjög afmörkuð málefni og setji þau ekki í stærra samhengi. Þess konar pólitík leitist ekki við að brjóta niður stofnanir, s.s. hjónaband, ríki, her og lögreglu, sem ýti undir ofbeldi og jaðarsetningu og mismuni hinsegin fólki. Þvert á móti snúist hún um að fá aðgang að þessum stofnunum og komast undir þeirra verndarvæng.
Spade vekur athygli á því að íhaldssöm hinsegin pólitík geri fjölmörgum stjórnmálamönnum og fyrirtækjum kleift að bleikþvo stefnu sína, jafnvel þótt hún einkennist af andúð í garð fátækra, rasisma, karlrembu og hernaðarbrölti.
Spade vekur athygli á því að íhaldssöm hinsegin pólitík geri fjölmörgum stjórnmálamönnum og fyrirtækjum kleift að bleikþvo stefnu sína, jafnvel þótt hún einkennist af andúð í garð fátækra, rasisma, karlrembu og hernaðarbrölti. Þeir þurfi aðeins að lýsa yfir stuðningi sínum við hjónaband samkynhneigðra og rétti þeirra til að gegna herþjónustu til að skapa sér framsækna ímynd. Spade bendir á að síðara kjörtímabil Obama Bandaríkjaforseta hafi einkennst af slíkum bleikþvotti. Hann hafi lýst sig hlynntan herþjónustu samkynhneigðra og hjónaböndum tveggja einstaklinga af sama kyni. Þannig hafi hann notfært sér framsæknina sem gjarna er tengd við hinsegin réttindabaráttu til að dreifa athygli fólks frá þátttöku hans í að byggja upp ofbeldisfyllstu stofnanirnar ríkisins, t.d. með því að efla landamæraeftirlit, viðhalda stærsta fangelsiskerfi heims, láta stríðið gegn hryðjuverkum viðgangast og ganga hart á eftir uppljóstrurum á borð við Chelsea Manning.
Því virðist sem meginsjónarmiðin að baki stuðningi sendiráðsins einkennist ekki af manngæsku einni saman heldur sé honum, þvert á móti, ætlað að draga athygli frá aðgerðum sem einkennast af skorti á mannúð.
Raunar má sjá merki um bleikþvott Obama snemma á fyrsta kjörtímabili hans en árið 2011 gaf hann út minnisblað um alþjóðlegar aðgerðir til að vinna að framgangi mannréttinda hinsegin fólks. Þannig urðu réttindi hinsegin fólks að forgangsmáli í bandarískri utanríkispólitík og myndar það vafalaust grundvöllinn að þátttöku sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi í dagskrá Hinsegin daga í Reykjavík. Því virðist sem meginsjónarmiðin að baki stuðningi sendiráðsins einkennist ekki af manngæsku einni saman heldur sé honum, þvert á móti, ætlað að draga athygli frá aðgerðum sem einkennast af skorti á mannúð. Í ofanálag er vitað að sumar þessara aðgerða, sérstaklega viðhald hins gríðarstóra fangelsiskerfis, hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir jaðarsettustu hópa hinsegin samfélagsins þar í landi. Því má segja að þátttaka bandaríska sendiráðsins í starfi Hinsegin daga í Reykjavík stríði gegn þeirri sívaxandi áherslu íslenska hinsegin samfélagsins að beina athyglinni frá þeim sem mest hafa forréttindin og að þeim sem síst njóta þeirra. En þrátt fyrir það var sendiráðið sæmt mannréttindaviðurkenningu Samtakanna '78 árið 2013 fyrir framlag sitt til hinsegin málefna á Íslandi sem sýnir okkur að þessi taktík svínvirkar.
En hvað svo? Það er auðvitað fremur harkalegt að krefjast þess í krepputíð að frjáls félagasamtök sem hafa sett sér metnaðarfulla stefnu varðandi fjármagn frá fyrirtækjum hafni fé frá aðilum á borð við bandaríska sendiráðið á Íslandi. En það þýðir heldur ekki að líta framhjá því að aðkoma bandaríska sendiráðsins að Hinsegin dögum í Reykjavík myndar ærandi mótsögn. Annað tveggja stærstu hinsegin samtakanna í landi sem sífellt stærir sig af jákvæðu hinsegin orðspori er aðili að bleikþvotti sem ætlað er að draga athygli frá aðgerðum sem hafa afar neikvæð áhrif á hinsegin fólk erlendis og hin stærstu samtökin verðlauna bleikþvottinn.
Vafalaust er í báðum tilfellum um óviljaverk að ræða. Það breytir þó ekki niðurstöðunni heldur sýnir okkur fram á að við, hinsegin fólk á Íslandi, þurfum sífellt að líta á stóra samhengið ef við viljum ekki feta sömu braut og Bandaríkjamenn með því að stunda íhaldssama hinsegin pólitík sem skoðar aðeins málefni í einangrun og gengst þannig þeim stofnunum á hönd sem jaðarsetja enn frekar þau okkar sem standa verst að vígi.