Starfsfólk Lehman Brothers fékk rúmlega 40 milljónir dollara í bónusgreiðslur á síðasta ári. Og nei, þessi pistill var ekki skrifaður árið 2009 og geymdur í skúffu. Þessar bónusgreiðslur voru fyrir árið 2014. Upphæðin nam 50 milljónum dollara árið 2013. Bankinn er enn starfandi því að nokkur umsýsla er enn í kringum eignir hans, sem verið er að vinda ofan af. Það sama gildir um gömlu íslensku bankana, en eins og oft hefur komið fram hafa slitastjórnarmenn þeirra einnig greitt sér háar fjárhæðir á síðustu árum.
Maka krókinn
Sigríður Mogensen, hagfræðingur.
Í rannsókn þriggja prófessora við Harvard háskóla í Bandaríkjunum kemur fram að fimm æðstu stjórnendur Bear Stearns og Lehman Brothers högnuðust um rúmlega þúsund milljónir dollara á árunum 2000-2008. Var um að ræða bónusgreiðslur og sölu á hlutabréfum í bönkunum sjálfum. Þessar fjárhæðir skýrast að mörgu leyti af ævintýralegum vexti, og hagnaðar alþjóðlegs fjármálakerfis á síðustu áratugum. Því hefur verið haldið fram að stjórnendur fallinna fjármálastofnana hafi sjálfir hlotið mikinn skaða af falli þeirra og það sé sönnun þess að þeir hafi ekki haft hag af því að taka of mikla áhættu. Þessar tölur sýna annan raunveruleika. Vissulega töpuðu yfirmenn gjaldþrota banka miklum upphæðum í formi hlutabréfaeignar þegar bankarnir sem þeir stýrðu féllu. En gróðinn sem þeir höfðu tekið út áður er margfaldur þeirri upphæð sem tapaðist á pappírnum, og mun meiri en meðalmaðurinn þénar alla sína starfsævi.
Umboðsvandi
Grunnrökin fyrir árangurstengdum greiðslum í formi bónusa, kaupauka og kauprétta hjá fyrirtækjum er sú trú að þær leysi hinn svokallaða umboðsvanda. Í sinni einföldustu mynd snýst umborðsvandinn um það að stjórnendur fyrirtækja hafa ekki endilega hvata til að starfa í samræmi við hagsmuni hluthafa, vinnuveitenda sinna. Árangurstengdar greiðslur ganga út á að verðlauna stjórnendur og starfsmenn fyrir að hámarka hag hluthafanna, „hvetja“ þá til að setja hag hluthafa í forgrunn en ekki sinn persónulega hag.
Niðurstöður þeirra sem rannsökuðu fall Lehman Brothers benda til að bónuskerfið sem þar var við líði hafi aukið áhættuna í rekstri bankans umtalsvert. Í skýrslu þeirra kemur fram að hvatakerfi bankans hafi leitt til þess að starfsmenn og stjórnendur tóku aukna áhættu með skammtímagróða að leiðarljósi, og hafi beitt ýmsum aðferðum til þess. Þetta er í þversögn við þær kenningar að bónusgreiðslur bæti afkomu hluthafa. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á tengsl á milli bónuskerfa og bókhaldssvika. Stjórnendur sem fái árangurstengdar greiðslur hafi hvata til að ýkja hagnaðartölur og draga úr bókfærðum kostnaði. Þess háttar hegðun felur ekki endilega í sér lögbrot, því reikningsskilareglur gefa stjórnendum ákveðið svigrúm til að meta tekjur og kostnað. Í tilfelli Lehman Brothers fóru stjórnendur þó langt yfir strikið með aðferðum sínum við uppgjör afleiðusamninga, sem leiddu til þess að opinberar tölur um afkomu bankans voru verulega skekktar. Áhættustýringakerfi í bönkum virðast ekki með nokkru móti hafa tekið tillit til þeirrar áhættu sem skapaðist í tengslum við uppbyggingu bónusgreiðslna.
Bónusgreiðslurnar sjálfar áhættuþáttur
Bónusgreiðslur og aðrar árangurstengdar greiðslur hafa tíðkast um áratugaskeið í öllum greinum atvinnulífs. Einhverjir spyrja sig eflaust hvort það sé ekki bara í góðu lagi, hvort þetta sé ekki einkamál fyrirtækja og þeirra starfsmanna sem njóta ágóðans af bónusgreiðslum? Það er auðvitað ekkert að því að verðlauna gott starfsfólk með góðum kjörum, og auðvitað er jákvætt að það séu tengsl á milli vinnusemi og afkomu fólks. En það hvernig til dæmis bankar haga launagreiðslum til starfsfólks er ekki einkamál hluthafanna, því eins og fjármálakerfið er uppbyggt í dag kemur öllu samfélaginu við.
Bónusarnir komnir aftur
Margir eru á þeirri skoðun -- og hafa fært fyrir því sannfærandi rök -- að bónusgreiðslur til bankamanna hafi verið einn aðalorsakavaldur fjármálakreppunnar sem skall á árið 2008. Að bónusgreiðslur og árangurstengdar greiðslur hafi í raun haft í för með sér aukna áhættusækni og að þær skapi ranga hvata, sem komi niður á langtímahagsmunum hluthafa og samfélaginu í heild.
Íslensk fjármálafyrirtæki eru farin að greiða starfsmönnum sínum bónusa á ný. Það er ekki að undra þó að fólk spyrji sig hvers vegna. Ekki má gleyma að stærstu bankarnir voru reistir úr öskustónni með skattfé almennings. Þetta snýst ekki um að vera með eða á móti bönkum og háum launum í bankakerfinu. En það þarf að eiga sér stað yfirveguð umræða um það hvort það sé rökrétt að starfsfólk banka fái afkomutengdar greiðslur og hvernig launakerfið á að vera uppbyggt, til að tryggja hagsmuni hluthafa og samfélagsins. Þetta er ekki bara spurning um siðferði heldur einnig áhættu. Reynsla áranna 2000-2008 sýnir að það ætti ekki að vera sjálfsagður hlutur að greiða himinháa bónusa.
Höfundur er hagfræðingur og meistaranemi við LSE í London.