Það hefur vart farið framhjá neinum sem fylgist með fréttum að aðalmeðferð í allsherjarmarkaðsmisnotkunarmáli Landsbankans stendur yfir um þessar mundir. Til stendur að taka skýrslu af um 50 vitnum auk allra hinna gagnanna sem lögð eru fram.
Það vakti athygli í Bakherberginu að lögmenn þriggja þeirra fjögurra sakborninga sem ákærðir er í málinu eru með mikil bankatengsl. Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrum bankastjóra Landsbankans, sat í stjórn Glitnis banka þegar hann féll í október 2008. Helgi Sigurðsson, sem er verjandi Júlíusar Steinars Hreiðarssonar, var yfirlögfræðingur Kaupþings um margra ára skeið. Hann hætti störfum þar sumarið 2009. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, verjandi Ívars Guðjónssonar, sat í skilanefnd Kaupþings frá bankahruni og þar til hann flutti sig yfir í slitastjórn bankans eftir að skilanefndin var lögð niður. Jóhannes Rúnar hefur meðal annars borið vitni í málum sérstaks saksóknara gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings. Hann sat líka, samkvæmt frétt í Morgunblaðinu frá því í janúar 2011, í eftirlitsnefnd Kaupþings sem hafði það hlutverk að endurskoða ýmsar óvenjulegar lánveitingar til aðila sem tengdust bankanum ásamt því að sjá um samskipti skilanefndarinnar við embætti sérstaks saksóknara.
Þessir þrír eru ekki einu verjendur manna sem sitja á sakamannabekk vegna hrunmála sem starfað hafa fyrir fjármálafyrirtæki. Lárentsínus Kristjánsson, sem varði Steinþór Gunnarsson í hinu svokallaða Ímon-máli, var formaður skilanefndar Landsbanka Íslands frá því að nefndin var sett á fót 7. október 2008 og þar til hún var lögð niður í lok árs 2011. Þá var Óttar Pálsson, sem varið hefur Lárus Welding, fyrrum forstjóra Glitnis , í ýmsum málum, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Straums fjárfestingabanka á árunum 2006 til 2009 þegar hann tók við stöðu forstjóra í bankanum. Hann hafði þá verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Óttar gengdi starfi forstjóra þangað til að fjárhagslegri endurskipulagningu Straums lauk. Hann hefur síðan þá setið í stjórn ALMC hf., sem áður hét Straumur fjárfestingabanki.