Ég fór á fund í hádeginu í Iðnó þar sem kjaradeilur voru til umræðu og fluttu Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Ari Skúlason hagfræðingur og Katrín Ólafsdóttir, doktor í vinnumarkaðshagfræði og einn nefndarmanna í Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, erindi. Hvað er hægt að læra af sögunni? var spurt, og sérstaklega horft til þess, hvernig mætti vernda kaupmáttarárangur sem hefur náðst að undanförnu.
Öll sammála um ómögulegheitin
Skemmst er frá því að segja, og öll voru þau sammála um að staðan sem upp er komin í kjaraviðræðum sé óviðunandi, óskynsamleg og að öllum líkindum muni hún leiða til þess að allir hópar, sem nú freista þess að ná fram kjarabótum, muni á endanum tapa. Ástæðan er sú að hagkerfið muni ekki geta staðið undir því að hækka laun allra hópa um þau 15 til 30 prósent sem kröfur hafa verið gerðar um. Verðbólga muni aukast og vextir hækka.
Þetta kom ekki að öllu leyti á óvart, og þó. Það er ekki eins og þau komi öll úr sömu áttinni. Ari var hagfræðingur ASÍ um tíma, og var hann þó líklega sá sem notaði stærstu orðin. Óskiljanlegt væri í reynd, hvers vegna ekki væri horft meira til þeirrar aðferðarfræði, sem hefði gefist vel í síðustu tveimur kjarasamningum; að reyna að semja um að auka kaupmátt launa fremur að horfa til þess að hækka nafnlaun og gera öllum til geðs. Með öðrum orðum; að hugsa um hagsmuni heildarinnar.
Þorsteinn Pálsson benti síðan á þrjú atriði, sem segja mikið um stöðu mála og það pólitíska andrúmsloft sem hér hefur ríkt alveg frá kosningunum 2009. Stjórnvöld hafa vanrækt að halda traustu sambandi við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur. Bæði vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og nú ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sagði Þorsteinn, að miðjan hefði verið hundsuð, í pólitískum skilningi, sem hefði leitt til harðari og tilfinningaríkari deilna um hvar hin réttláta skipting þjóðarkökunnar liggur. Auk þess hefði trúverðugri og vel unninni skýrslu frá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey, sem sýndi svart á hvítu að auka þyrfti framleiðni á Íslandi - það væri í raun aðkallandi vandamál - verið sett ofan í skúffu og stjórnvöld ekkert gert með hana.
Síðan var það rúsínan í pylsuendanum: Þorsteinn sagði öll helstu útflutningsfyrirtæki landsins búa við annan veruleika en almenningur. Þau væru með tekjur í erlendri mynt, með bókhaldið í erlendri mynt og fengju auk þess aðgang að lánsfé í erlendri mynt, á allt öðrum og betri vaxtakjörum en byðist öðrum. Þetta leiddi til baráttu milli tveggja heima; hávaxtaveruleikans með örmyntina, krónuna, og síðan hins stönduga hluta hagkerfisins sem nyti góðs af alþjóðlegu samkeppnisumhverfi.
Sagði Þorsteinn að þetta leiddi til vendinga og óstöðugleika, sem birtust ekki síst í hörðum deilum á vinnumarkaði þessa dagana. Einnig leiddi þetta fram rökræður sem væru dæmdar til þess að falla niður dauðar. Eins og þegar læknar kröfðust þess að fá laun, sem væru samkeppnishæf við útlönd. Þetta væru ómöguleg rök á Íslandi, þar sem markmiðið um að búa til samkeppnishæf laun við alþjóðlega stöðu, með núverandi fyrirkomulag, gæti aldrei orðið að veruleika, og þau væru auk þess yfirfæranleg á aðrar stéttir á Íslandi sömuleiðis. Spurningin; hver ætti skilið að fá hækkun, á þessum forsendum, væri marklaus og opin í báða enda.
Skerandi beitt
Greining Þorsteins var skerandi beitt, satt best að segja, og alvarleg um leið. Hann sagðist halda, að kjaraviðræðurnar hefðu farið út um þúfur eftir að Vilhjálmur Birgsson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, fékk óskoraðan stuðning forsætisráðherra, fyrir þeim kröfum sem síðan hafa orðið leiðarstefið á almennum vinnumarkaði. Eftir það hefðu viðræðurnar verið komnar á endastöð, og ómögulegt hefði verið að byggja upp traust, bæði innan verkalýðshreyfingarinnar og síðan milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Viðkvæm staða hefði orðið verri. Líklega væri best að semja í eins stuttan tíma og mögulegt væri, til þess að reyna að vinna tíma til þess að koma hlutunum aftur á réttar brautir.
Nú er að vona að það náist samningar um eitthvað annað en innistæðulausar hækkanir á launum almennings, sérstakalega þeim hluta sem berst í bökkum í örmyntarhluta hagkerfisins. Stjórnmálamenn hafa gjörsamlega brugðist í hlutverki sínu og þurfa auðmjúklega að viðurkenna það. Og beita sér fyrir sátt, og skynsamlegri lausn á þessum harðvítugu deilum sem eru að ógna annars góðum árangri í endurreisnarstarfinu eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008.