Það vakti töluverða athygli þegar Ari Edwald, fyrrum forstjóri 365, var ráðinn nýr forstjóri Mjólkursamsölunnar fyrir skemmstu. Með því heldur stjórn Mjólkursamsölunnar reyndar í þann vana að ráða fyrrum forstjóra fjölmiðlafyrirtækja í forstjórastólinn, en Einar Sigurðsson, fráfarandi forstjóri, stýrði Árvakri áður en hann færði sig yfir í mjólkina.
Það sem gerir ráðningu Ara áhugaverða er líka sú staðreynd að hann hefur verið lúsiðinn undanfarin ár að tala gegn einokun ríkisfyrirtækja og óeðlilegri samkeppni sem opinberir aðilar veita einkaaðilum á markaði.
Í apríl 2002, þegar Ari var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kvartaði hann til að mynda yfir því að opinberir aðilar veittu fyrirtækjum í hugbúnaðargeiranum óeðlilega samkeppni. Gera þyrfti þá kröfu til hins opinbera að það keppi ekki við einkafyrirtæki.
Ári síðar kynnti Ari nýja skýrslu Samtaka atvinnulífsins sem hét „Bætum lífskjörin!“. Í frétt um málið á heimasíðu samtakana sagði Ari að „innlendar landbúnaðarvörur væru meginorsök hærra matvælaverðs hérlendis en í nágrannalöndunum. Veruleg umskipti væru framundan á alþjóðavettvangi og aukin hagkvæmni á þessu sviði væri skilvirk leið að bættum lífskjörum“. Ráðandi aðili í framleiðslu á innlendum landbúnaðarvörum er Mjólkursamsalan, nýr vinnuveitandi Ara.
Í starfi sínu sem forstjóri 365 miðla var Ari líka óþreytandi að hnýta í starfsemi RÚV og hversu illa hún kæmi sér fyrir einkaaðila á fjölmiðlamarkaði. Í júní 2008 sagði hann í samtali við Fréttablaðið að niðurgreiðsla á starfsemi RÚV með skattfé fæli í sér beina atlögu að rekstrargrundvelli allra einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja í landinu.
Í frétt á Pressunni frá því í október 2009 sagði Ari RÚV hafa mikil og óeðlileg áhrif. „Allra hluta vegna er það nauðsynlegt að Ríkissjónvarpið búi við meiri takmarkanir í sinni tekjuöflun á markaði heldur en einkaaðilar sem treysta eingöngu á markaðinn. Það er hrópandi óréttlæti í því fyrirkomulagi.“
Ara var sérstaklega umhugað um meint samkeppnisbrot RÚV þegar hann var spurður út í stöðuna á fjölmiðlamarkaði. Í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst 2011 sagði hann stöðuna þar vera óeðlilega. „Fyrir mér hafa áherslur stjórnendanna sem nú eru á RÚV birst með svipuðum hætti og ef Þjóðleikhúsinu yrði breytt í Smárabíó eða ef ríkið myndi opna diskótek út í bæ. Það er undarlegt að stjórnmálamenn sem tala fyrir samkeppni skuli ekkert vilja láta gera í þessum augljósu og síendurteknu lögbrotum sem Eftirlitsstofnun EFTA og raunar Samkeppniseftirlitið líka hafa staðfest. Þessi staða hefur skaðað þessa atvinnugrein, fjölmiðlarekstur, mjög mikið.“
Nú er Mjólkursamsalan vissulega ekki fyrirtæki í opinberri eigu. Það hefur hins vegar lögvarða einokunarstöðu á markaði, búvörulög eru undanskilin samkeppniseftirliti og verðsamráð afurðastöðva í mjólkuriðnaði er lögfest. Auk þess niðurgreiða íslenskir skattgreiðendur mjólkurframleiðslu (á þessu ári eru greiðslur vegna mjólkurframleiðslu úr ríkissjóði áætlaðar 6.550 milljónir króna).
Mjólkursamsalan hefur líka verið, að mati Samkeppniseftirlitsins, uppvís af grófum samkeppnislagabrotum með því að selja öðrum aðila á markaði hrámjólk á 17 prósent dýrara verði en fyrirtækjum tengdum Mjólkursamsölunni. Upphaflega var lögð á fyrirtækið 370 milljóna króna sekt en áfrýjunarnefnd felldi þá álagningu úr gildi og málinu er, sem stendur, enn ólokið.
Það verður því ákveðin kúvending fyrir Ara að fara frá því að berjast hetjulega fyrir frjálsri samkeppni og gegn einokun ríkisins yfir í að verja þá ríkisniðurgreiddu einokunarstöðu sem Mjólkursamsalan hefur á sínum markaði. Nema að ráðning Ara muni marka tímamót og til standi að færa samkeppni á mjólkurvörumarkaði úr ríkisskjólinu og í átt að auknu frelsi.
Og augljóst er að Ari hlýtur að þurfa að selja 2,25 prósent hlut sinn í 365 miðlum, sem tekur stærstan hluta auglýsingafjár á íslenska markaðnum til sín, þegar hann verður farinn að stýra Mjólkursamsölunni, einum stærsta auglýsanda landsins.