Ár eftir ár segja kannanir hamborgarhrygginn vinsælasta jólamat Íslendinga. Föstudagskvöld eru vinsæl pizzukvöld á íslenskum heimilum þar sem þúsundir fjölskyldna sporðrenna pepperóní. Margir foreldrar setja skinkusamloku í nesti barnanna og fæst getum við ímyndað okkur dögurð án þess að boðið sé upp á beikon. Svínakjöt er vissulega ein allra vinsælasta kjöttegund landans, enda ekki furða. Framboðið er heilmikið. Við slátrum um 80.000 svínum árlega.
En, hvar eru þessi svín? Öll þessi 80.000 svín.
Ég ætla að gefa mér að eðlilegt þyki að meðalíslendingurinn berji eitt svín augum árlega. Aðeins eitt. Þá ætti ég, þrjátíuogsex ára konan, að hafa séð 36 svín á lífsleiðinni. Ég get fullvissað ykkur um það að sú tala er fjarri lagi. Ég velti því fyrir mér hvort það séu ekki ansi góðar líkur á því að fjölmargir Íslendingar hafi hreinlega aldrei séð svín á Íslandi. Aldrei. Nema kannski svínin sem við geymum í Húsdýragarðinum.
Bændur hér í den hleyptu svínunum sínum út, rétt eins og öðrum húsdýrum. Á þeim tíma var hugtakið landbúnaður augljóst réttnefni yfir þessa búgrein. Nú, árið 2015, þegar svín fá aldrei sólarljósið séð, nema það brjóti sér leið inn um glugga, stendur hann vart undir nafni. Einhvern veginn á ég auðveldara með að sjá fyrir mér landbúnað í uppsveitum og dölum en í póstnúmerinu 116 Kjalarnes.
Barátta fyrir velferð svína er ekki auðveld. Hún er það ekki úti í heimi. Hún er það heldur ekki á Íslandi. Hugsjónir og peningar eru andstæðingar sem standa ekki jafnfætis í þessum slag. Barátta samtaka eins og Velbú má síns lítils á meðan framleiðendur neita að bæta úr brýnum velferðarmálum í svínahaldi og Íslendingar halda samt sem áður áfram að kaupa svínakjöt. Við setjum enn pepperóní á pizzuna og skinku á samlokuna, án þess að gera okkur grein fyrir að með því, og aðeins því, erum við að samþykkja framleiðsluaðferðirnar. Það verða engar breytingar nema við sjálf knýjum þær fram.
Mislíkar þér að gyltur á Íslandi séu haldnar í grindum svo þröngum að þær geta aðeins legið eða staðið og aldrei snúið sér við? Mislíkar þér að eina hreyfingin sem gylta á Íslandi fær er gönguferðin frá grindinni í gotbásinn, þar sem hún fæðir grísina, og aftur til baka, tvisvar á ári? Mislíkar þér að gyltur á Íslandi séu sæddar aftur aðeins nokkrum dögum eftir að þær hætta með grísina sína á spena? Mislíkar þér að svín á Íslandi fá ekki að fara út undir bert loft eins og önnur húsdýr? Ef já, sýndu það í verki í næstu búðarferð.
Við í Velbú vonum að Beikonhátíðin, sem fram fer nú um helgina, verði Íslendingum áminning um það hve brýnt er að bæta velferð svína í svínahúsum landsins. Þá óskum við aðstandendum hátíðarinnar alls hins besta og hvetjum þau til þess að gera velferð svína hátt undir höfði á næstu hátíð.
Höfundur er Stjórnarmaður í Velbú, samtökum sem berjast fyrir bættri velferð búfjár á Íslandi.