Á tímum sem þessum, þar sem ungar konur hefja hverja byltinguna á fætur annarri, fyllist ég gríðarlegu stolti. Ég er svo uppfull af stolti og kærleik til þessa kvenna að stundum get ég ekki annað en hreinlega grátið. Ég átti gott augnabik í þessari viku þar sem ég var að skrolla niður fréttaveituna mína og lesa sögur af hugrekki, þerrandi gleðitárin (og sorgartárin), komin upp á hið bleika ský byltingarinnar, þegar ég rakst á mynd frá Ungfrú Ísland sem skellti mér strax aftur til jarðar.
Um þessar mundir er verið að velja (og kannski er jafnvel búið að velja) keppendur, stelpur, konur, í fegurðarsamkeppnina Ungfrú Ísland 2015. Þegar þessar byltingar blasa við manni og hugrekkið sem hóf þær þá virðist keppnin „Ungfrú ísland“ ennþá bjánalegri og óþarfari en áður og það að þetta sé að gerast samtímis setur hlutina í eitthvert nýtt samhengi.
Tímaskekkja
Hugrekki þessara kvenna og þessara byltinga hefur EKKERT með hlutgerða fegurð að gera. Brjóstin þín þurfa ekki að uppfylla einhverja fegurðarstaðla (hvítra, miðaldra karla í vesturlöndum) til að breyta heiminum, þau þurfa bara að vera óhrædd og laus við skömm. Sagan þín þarf ekki að vera falleg til að við nennum að hlusta á hana og tökum mark á henni. Raunveruleikinn, nákvæmlega eins og hann er, er það sem stingur okkur svo djúpt og neyðir okkur til að hlusta. Þú þarft ekki að vera í bikíní til að við hlustum, þú þarft ekki að velja þér síðkjól, þú þarft ekki að hvítta á þér tennurnar, maka á þig brúnkukremi, læra að labba í hælum, vera andlit Oriblou eða krulla á þér hárið.
Þú mátt auðvitað gera alla þessa hluti en ekki til að tekið sé mark á þér eða til að þú getir sinnt góðgerðamálum. Þú þarft ekki að uppfylla kröfur samfélagsins um fegurð til að breyta hlutum til hins betra.
Hallærislegt slagorð
Samkvæmt framkvæmdarstýru Ungfrú Íslands 2015 á keppnin í ár ekki að snúast um fegurð (ég hef séð slagorðið „beauty with a purpose“ (nenni ekki einu sinni að fara útí það hvað mér finnst þetta slagorð hallærislegt) hér og þar á síðu keppninnar. Hún á að snúast um að byggja upp sjálfsálit keppenda og undirbúa þá fyrir keppnirnar úti og gera þá að góðgerðar-ungfrúm Íslands og svo síðar góðgerðar-ungfrúm heimsins sem vilja aðeins heimsfrið! Ef svo er, af hverju ekki að sleppa öllu glingrinu í þetta skiptið? Af hverju ekki að sleppa tískusýningunni, sundfatakeppninni (það eru, eins og margir vita, veitt sérstök verðlaun fyrir stúlkuna sem lítur best út í bikíní eða undirfötum sem ég skil ekkert hvernig tengist góðgerðarstarfsemi), síðkjólunum og kórónunni?
Ef þið viljið endilega halda þessa keppni (því hún er svo óskaplega mikilvæg), af hverju ekki að sleppa catwalkinu og skella upp ræðupúlti? Taka út „beauty“ og einbeita sér bara að „purpose.“ Tíminn sem fer í æfingar að ganga á hælum getur farið í að undirbúa vel ígrundaða kynningu á því hvernig þú, sem einstaklingur, getur bætt umhverfi þitt og svo heiminn. Og ef þetta snýst um hvernig einstaklingur getur breytt heiminum með góðverkum og góðgerðastarfsemi, af hverju ekki að hafa bæði kynin og sleppa „ungfrú“ og kalla þetta „fulltrúa góðgerðamála fyrir hönd Íslendinga-keppnin“?
Væri að ekki skemmtilegra sjónvarpsefni? Eða væri þetta kannski bara frábært podcast?
Og ef sú hugmynd er alveg hrikaleg ,og þið viljið bara halda í keppnina eins og hún er, þá segi ég bú á ykkur og útaf með Ungfrú Ísland.
Höfundur er skáld.