Snorri Baldursson, líffræðingur og þjóðgarðsvörður, skrifar öðru sinni í Kjarnann 31. ágúst og svarar þá svari mínu við fyrstu grein hans. Snorri segir um skrifin mín að ég afflytji sumt og skauti framhjá öðru. Ekki rökstyður hann það.
Ekkert einræði um stefnuna
Snorri skrifar að skógræktarfólk hafi verið einrátt um mótun skógræktarstefnunnar. Það er rangt. Umhverfisráðherra fól skógræktarfólki að móta þessa stefnu. Óskað var eftir athugasemdum við uppkast og bárust m.a. athugasemdir frá Snorra sem tekið var tillit til, m.a. þegar ákveðið var að stefna að 12% skógarþekju á Íslandi. Lögð voru saman markmið landshlutaverkefna í skógrækt um 2% skógarþekju (5% láglendis) og markmiðin um 10% þekju birkiskóga í skýrslunni Vernd og endurheimt íslenskra birkiskóga sem gefin var út af umhverfisráðuneytinu 2007. Að þessu komu alþingismenn og fulltrúar bæði Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar og ósanngjarnt að segja að skógræktarfólk hafi verið einrátt um mótun skógræktarstefnu.
Pétur Halldórsson, kynningarstjóri hjá Skógrækt ríkisins
Mér finnst þó gott hjá Snorra að krefjast skýrari stefnu og að úttekt verði gerð um hvernig við viljum sjá gróðurfar landsins þróast. Skógræktarfólk hefur ítrekað óskað eftir endurskoðun laga um skógrækt og í þeirri stefnu sem unnin hefur verið um skóga á Íslandi á 21. öld er lagt til að gerð verði landsáætlun í skógrækt sem verði grunnurinn að skógræktarstarfinu í landinu. Þessi háttur er hafður á víða um heim að forskrift FAO og kallast National Forestry Programme. Í stefnuskjalinu segir orðrétt:
„Landsáætlunin skal eiga sér stoð í lögum og vera unnin með aðkomu allra viðkomandi aðila innan og utan skógræktargeirans. Hana skal endurskoða á fjögurra ára fresti og verður þannig virkt ferli frekar en dautt plagg.“ (Skógar á Íslandi, bls. 18).
Vill þjóðin skóg?
Eftirfarandi spurningar Snorra eru mjög góðar og vert að fá svör við þeim: „Gerir almenningur sér fulla grein fyrir þeim feiknarlegu áformum sem skógarstefnan felur í sér? Á hvernig landi á að rækta allan þennan skóg? Hvað hverfur í staðinn? Hvað hverfur mikið af lyngmóum, fléttumóum, berjalautum, mýrum, deiglendi, blómlendi, engjum, melum, vikrum o.s.frv.? Hver er núverandi þjónusta þeirra gróðurlenda og landgerða sem hverfa (ferðamennska, upplifun, nytjar)? Hvað verður um mó- og vaðfuglana? Hvaða áhrif hefur fyrirhuguð umbylting gróðurfars og landslags á ferðamannastraum til landsins? Og þannig má áfram telja.“
„Gleymum því heldur ekki að með öflugri skógrækt leggjum við okkar af mörkum í baráttu mannkyns við loftslagsbreytingar.“
Í Gallup-könnun frá 2003 sást að þjóðin var ánægð með íslenska skógrækt. Minna en einu prósenti þótti of mikill skógur í landinu og um fimmtungur þjóðarinnar tók beinan þátt í skógræktarstarfi. Nú þyrfti að kanna aftur, til dæmis hvort fleirum þykir nú of mikill skógur í landinu en þótti það 2003.
Hvar og hvar ekki?
Hérlendis er nytjaskógur að mestu ræktaður á landbúnaðarlandi undir 200 metra hæð yfir sjó. Valdið er bóndans. Oftast verður rýrt beitiland fyrir valinu þegar rækta skal skóg. Margt getur horfið þegar skógur er ræktaður, til dæmis lyngmóar og berjalautir, en það sama getur líka gerst ef land er friðað fyrir beit. Votlendisfuglum ætti ekki að stafa hætta af skógrækt því hún er ekki stunduð í mýrum. Skógur er sjaldan ræktaður á landi sem ræst var fram löngu fyrr. Endurheimt mýra er líka góð og gild en betur þarf að rannsaka hver ávinningur hennar er í kolefnisbókhaldinu þótt ávinningur fyrir fuglalíf sé augljós.
Um gengi mófugla með aukinni skógrækt virðast vera áhöld. Betur þarf að rannsaka hvort aðferðir og umfang skógræktar hefur áhrif á stofnstærðir fugla. Aðrar breytingar á landnotkun og veðurfari verður líka að taka með í þann reikning. Öflug vistkerfi eins og skógar smita út frá sér og næsta nágrenni skógarins verður fyrirtaks búsvæði fyrir fugla sem ekki vilja þó vera í skógi. Er ekki allt eins líklegt að ef við bönnum lausagöngu sauðfjár um misvel gróið fjalllendi og öræfi landsins muni búsvæði mófugla stækka margfalt á við þau sem fara undir þá hóflegu skógrækt sem stunduð er á Íslandi?
„Margt getur horfið þegar skógur er ræktaður, t.d. lyngmóar og berjalautir, en það sama getur líka gerst ef land er friðað fyrir beit.“
Skógræktar- og landgræðslufólk hefur talað fyrir breyttum beitarháttum í meira en öld án mikils árangurs. Það veit ég að Snorra finnst jafnsúrt og mér. Þær niðurstöður sem hafa fengist með langtímarannsókninni Skógvist eru þegar nýttar til að skipuleggja ræktunarstarfið þannig að neikvæð áhrif verði sem minnst og ávinningur sem mestur fyrir bæði menn og umhverfi. Skógvist er sameiginlegt verkefni Skógræktar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands og þar eru meðal annars rannsökuð áhrif nytjaskógræktar á vistkerfi. Eitt af því sem þar hefur komið í ljós er að hrossagaukur er jafnvígur á skóg og skóglaust land.
Skógræktarfólk vill birki
Mér finnst Snorri snúa út úr orðum Þrastar Eysteinssonar og Sveins Runólfssonar í ritinu Hvítbjörk, þar sem Skógræktin og Landgræðslan settu fram tillögur að leiðum til endurreisnar birkiskóga á Íslandi. Það er erfitt að komast um þétt birkikjarr eða smala þar fé. Af kjarrinu eru litlar nytjar og því getur það verið til meiri ama en gagns í augum sauðfjárbónda. Á þetta benda þeir Þröstur og Sveinn í Hvítbjörk en það þýðir alls ekki að skógræktar- eða landgræðslufólk sé á móti birkiskógum. Þvert á móti. Nytjaskógar eiga hins vegar ekki að vera illfærir nema í mesta lagi í takmarkaðan tíma fyrir fyrstu grisjun. Góðir skógarbændur hirða um skóga sína þannig að þeir verði sem verðmætastir og þá er grisjað á réttum tíma þannig að trén sem eftir standa hafi rými og birtu til að vaxa. Um leið verða skógarnir greiðfærari fyrir fólk og jafnvel fénað. Birkikjarr verður ekki hirt á sama hátt nema á mjög takmörkuðum svæðum, því að slík umhirða er tímafrek og dýr en gefur litlar tekjur.
Fjölbreytnin er góð
Þá spyr Snorri hvers vegna ríkið hafi ekki sett það sem skilyrði fyrir styrkveitingum til landgræðsluskóga að þar skuli bara notaðar upprunalegar trjátegundir. Í verkefni þessu er reynt að koma til móts við sem flest sjónarmið, bæði almennings og þeirra sem styrkina fá. Íslendingar virðast t.a.m. vilja fjölbreyttan skóg. Í skógrækt á rýru landi næst líka oft betri árangur með öðrum trjátegundum en birki. Landgræðsluskógaátakið var aldrei hugsað sem hreint birkiskógræktarverkefni. Í áramótaávarpi sínu árið 1990 ræddi frú Vigdís Finnbogadóttir forseti um verkefnið sem þá stóð fyrir dyrum í tengslum við sextugsafmæli Skógræktarfélags Íslands: „[L]andgræðsluskógur er skilgreindur sem allar þær landgræðslu- og gróðurverndaraðgerðir, sem leiða til þess að örfoka eða lítt gróið land verði klætt trjágróðri að nýju, eða öðrum jurtagróðri sem bindur mold og býr í haginn.“
Sama rósin sprettur aldrei aftur
Að krefjast þess að ein atvinnugrein fari í frí á meðan þjóðin hugsar sinn gang er óraunhæft og óskynsamlegt. Það er heldur ekki boðlegt þeim sem í greininni starfa eða þeim sem eiga að njóta stöðugs arðs af skógunum í framtíðinni. Úrvinnsluiðnaðurinn sem byggist upp í landinu með vaxandi skógum á næstu áratugum þolir það ekki að skyndilega komi tímabil þegar ekkert hráefni er að hafa í skóginum. Snorri dregur reyndar nokkuð í land frá fyrri grein sinni með því að skrifa „að minnsta kosti stórlega dregið úr“. Það hefur þegar verið gert, því að árleg gróðursetning með opinberum styrkjum er nú helmingi minni en var fyrir bankahrunið. Markmiðið frá 2009 um 5% skógarþekju á láglendi fyrir 2040 næst því ekki að óbreyttu. Gleymum því heldur ekki að með öflugri skógrækt leggjum við okkar af mörkum í baráttu mannkyns við loftslagsbreytingar.
Í náttúrunni er aldrei snúið til baka til einhvers sem áður var. Veðurfar er aldrei eins á einum tíma og öðrum. Jarðvegur sem myndast á ný er ekki eins og sá sem fauk burt. Aðstæður í byggðu landi eru gjörólíkar aðstæðum í ónumdu landi. Sama rósin sprettur aldrei aftur. Flóran breytist með hlýnun jarðar. Við viljum betri og öflugri vistkerfi í landinu okkar. En við viljum líka betri vist fyrir okkur sjálf í landinu okkar.